AÐA

Modiolus modiolus

Aðan er stór samloka, 10-20 cm á lengd. Skeljarnar eru spegilmynd hvor af annarri. Þær eru þykkar og aflangar, með nefið fremst en nokkuð til hliðar við endann. Greinilegir vaxtarbaugar eru á skelinni. Aðan er dökkbrún eða svört á litinn. Lituð himna hylur skelina en þar sem hún hefur slitnað af er skelin hvít, blá eða fjólublá. Ungir einstaklingar hafa brúna skel með grófum hárum við aftari brún. Að innan er skelin hvít eða gulleit. För eftir lokunarvöðvann sjást greinilega innan í skelinni.

Með því að telja vaxtarbauga er hægt að aldursgreina öðuna. Algengt er að finna öðu sem er meira en 20 ára og er talið að hún geti orðið meira en 50 ára gömul. Aðan vex hraðast fyrstu árin, um einn cm á ári fyrstu 4-6 árin en eftir það dregur úr vexti og 20 ára er algengt að hún sé á bilinu 8-12 cm.

Ungar öður geta líkst kræklingi. Hægt er að greina þær að á því að öðurnar eru grófhærðar meðfram aftari jaðri skeljarinnar. Einnig er nefið á öðunni til hliðar á mjósta endanum en á kræklingi er það fremst á skelinni.


Spila myndband

Aðan lifir í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Við Evrópustrendur lifir hún frá Hvítahafi, suður til Biskajaflóa. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hún frá Labrador í norðri, suður til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Við Ísland er aðan algeng allt í kringum land. Hún lifir á miðlungsbrimasömum og mjög brimasömum stöðum. Hún er mjög algeng á klapparbotni innan um stórþara en er einnig á malarbotni sem hún grefur sig stundum ofan í. Oftast eru margar saman í flekkjum á botninum. Hún lifir neðst í fjörunni og niður á meira en 100 m dýpi neðan fjörunnar.

Eins og flestar tegundir af samlokum lifir aðan á svifþörungum og öðrum lífrænum smáögnum sem hún síar úr sjónum. Aðan dælir sjó inn undir skelina og út aftur. Fæðuagnir sem berast með sjónum festast í slími í tálknunum og eru færð með bifhárum sem eru á yfirborði tálknanna að munnopinu.

Aðan festir sig við botninn með sterkum þráðum sem hún spinnur í sértökum kirtli inni í skelinni. Með þeim festir hún sig við klöppina en þar sem er sand- eða malarbotn festir aðan gjarnan festuþræðina í aðrar skeljar þannig að allar öðurnar hanga saman í einum samfelldum klasa. Aðalóvinir öðunnar eru krossfiskar, krabbar og ránkuðungar eins og nákuðungur eða beitukóngur. Ekki er talið að rándýrin ráði við öðuna eftir að hún er orðin stærri en 4 til 5 cm.

Aðan verður kynþroska fimm til átta ára. Þegar aðan æxlast losa kvendýrin egg og karldýrin svil út í sjóinn þar sem frjóvgun verður. Hrygningin er seinni hluta sumars. Eggin berast um með straumum við yfirborð, lirfur klekjast úr eggjunum snemma næsta vor og hafast við í svifinu á meðan þær eru að taka út þroska. Um sumarið hefur lirfan tekið nokkrum breytingum í útliti og myndar um sig skel og leitar botns.

Víða í Faxaflóa er aða í miklu magni á botninum, þegar dýrin deyja safnast tómar skeljar fyrir í námunda við öðuflekkina. Í tímans rás hafa hlaðist upp lög af öðuskeljum og skelbrotum í innanverðum Faxaflóa. Þessi skeljamulningur hefur á undanförnum áratugum verið nytjaður fyrir sementsframleiðslu á Akranesi. Gröfuskip fer með reglubundnum hætti og sækir farm af skeljum af hafsbotni fyrir Sementsverksmiðjuna.