FJÖRUSKÓFIR

Lichenes

Allra efst í fjörunni ofan við þörungana eru grjót og klappir iðulega þaktar skófum sem oft eru svartar og líkjast tjöruskán á steinunum. Skófirnar geta þó verið margvíslegar á litinn, grænar, gráar, appelsínugular eða hvítar. Oft mynda þær skorpur á steinunum en geta einnig verið smáar fíngerðar hríslur eða blaðlaga og festar við steininn með stilk.

Skófir, sem eru einnig kallaðar fléttur, eru í raun ekki sjálfstæðir einstaklingar heldur sambýli svepps og þörungs. Sveppurinn í hverju sambýli er einstakur og er ekki að finna nema í einni fléttutegund. Þörungurinn er hins vegar ekki eins trygglyndur og getur sama þörungategundin fundist í mörgum fléttutegundum.

Í sambýlinu sér þörungurinn alfarið um ljóstillífun og nýmyndun lífræns efnis. Sveppurinn nærist á forðanum sem þörungurinn myndar. Á móti ver hann þörunginn fyrir beit, of sterku ljósi og heldur honum rökum.


Til eru allmargar tegundir skófna sem lifa efst í fjörunni en flestar þeirra er einnig að finna annars staðar. Þó eru til tegundir eins og fjörusverta (Verrucaria maura) sem bundin er við efri hluta fjörunnar og myndar þar þunna svarta skán á klöppunum. Græna flæðaskófin (Verrucaria mucosa) lifir um alla fjöruna niður að neðstu fjörumörkum og er eina tegund skófna sem lifir í neðri hluta fjörunnar hér við land. Hún er dökkgræn á litinn.