BRAUÐSVAMPUR

Halichondria panicea

Brauðsvampurinn myndar þykka skorpu á klöppum og steinum. Yfirborðið er tiltölulega slétt nema í kringum útstreymisopin sem eru oftast eins og lágir eldgígar sem standa upp af yfirborði svampsins. Á skjólsælum stöðum verður brauðsvampurinn mun þykkari en þar sem er meiri hreyfing og getur orðið eins til tveggja cm þykkur. Þar sem aðstæður eru góðar fyrir vöxt svampsins getur hann orðið 30 til 50 cm í þvermál.

Brauðsvampurinn er gulur eða appelsínugulur á lit. Stundum má þó sjá brauðsvamp sem er grænn á litinn. Græni liturinn stafar af grænþörungi sem lifir í sambýli inni í brauðsvampnum.


Við Ísland hefur brauðsvampur fundist allt í kringum land. Hann vex bæði í fjörunni og neðan hennar niður á 200 m dýpi. Meira er um hann í brimasömum fjörum en skjólsælum. Í fjörunni er hann algengastur í skjóli undir þangi og undir slútandi steinum neðan við miðja fjöruna, þar sem raki helst þegar lágsjávað er. Algengt er einnig að hann hylji þarastilka í þaraskóginum neðan fjörunnar.

Útbreiðslusvæði brauðsvampsins nær frá Barentshafi, suður með ströndum Evrópu allt suður til Miðjarðarhafsins. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hann frá Labrador í norðri, suður til Þorskhöfða í norðaustur Bandaríkjunum.

Brauðsvampurinn skapar straum af sjó í gegnum líkamann með hreyfingum bifhára sem eru á frumum í líkamsholi svampsins. Sjórinn fer inn um gisið yfirborð líkamans og streymir út um stærri göt sem eru áberandi á yfirborði svampsins. Hann nærist á lífrænum leifum og smáum lífverum sem hann síar úr sjónum. Hann lifir aðallega á svifþörungum.

Brauðsvampurinn æxlast vor og sumar. Hann er tvíkynja og myndar hver einstaklingur bæði svil og egg. Æxlun verður þó oftast milli ólíkra einstaklinga. Svampurinn losar svil út um útstreymisopin. Þau berast með sjó inn um veggi annars einstaklings þar sem þau frjóvga egg. Eggin þroskast og klekjast út inni í svampinum. Lirfan sem klekst úr egginu berst síðan út úr svampinum og lifir um tíma í svifinu nálægt yfirborði sjávar, þar til hún sest aftur á botninn og vex upp í nýjan brauðsvamp.

Brauðsvampurinn getur einnig fjölgað sér með því að bútur af svampinum losnar frá og vex upp í nýjan einstakling. Talið er að brauðsvampurinn geti lifað í allt að fimm ár.