LJÓSÁTA

Euphausiacea

Ljósáta er krabbadýr og lifir í svifinu alla ævi. Búkur hennar skiptist í höfuð, frambol og afturbol. Einn, heill skjöldur hylur höfuðið og frambolinn en afturbolurinn er liðskiptur, gerður úr sex liðum og er skjöldur á hverjum lið. Í krikum fremst á frambolnum eru tvö stór, svört augu. Framan við þau ganga tvö pör af fálmurum fram úr dýrinu. Hver fálmari endar í tveimur löngum þráðum. Raðir af fótum liggja aftur eftir dýrinu undir búknum. Undir frambolnum eru fæturnir grannir langir en stuttir og digrir undir afturbolnum. Aftur af afturbolnum ganga fjórar sundblöðkur.

Áberandi, greinótt tálkn eru neðan við skjaldarröndina aftan til á frambolnum. Neðan á dýrinu, bæði undir frambol og afturbol, eru ljósfæri sem lýsa í myrkri. Af þessum ljósfærum fær ljósátan nafn sitt. Ljósátan er ljósgul á lit, oft með rauðgulan frambol.


Ljósátan er með stærstu krabbadýrum í svifinu við Ísland. Fjórar tegundir eru algengar við landið, augnsíli (Thysanoessa inermis), agga (Thysanoessa raschi), sporðkrílináttlampi (Meganyctiphanes norvegica), sem er þeirra stærst. Náttlampinn getur orðið um fjögurra sentímetra langur. Tegundirnar eru algengar á mismunandi stöðum við landið. Agga heldur sig nálægt landi og er sú ljósátutegund sem er í mestu magni inni á fjörðum. Augnsíli er algengast yfir landgrunninu, náttlampi úti við landgrunnsbrún en búsvæði sporðkrílis er einkum í úthafinu utan við landgrunnið.

Ljósátan hefur hærða anga eða munnlimi sem hún nota til að sía fæðuagnir úr sjónum. Hún getur síðan valið úr bestu bitana. Ljósáta étur stóra svifþörunga, svo sem skoruþörunga og kísilþörunga, sem hanga saman í keðjum. Auk svifþörunganna eru rotnandi lífrænar leifar og smáar dýrasvifstegundir á matseðlinum.

Ljósátan er mikilvæg fæða fyrir marga af nytjastofnunum okkar. Af fiskum eru það fyrst og fremst ufsi og karfi sem éta ljósátu. Þorskurinn er einnig drjúgur afræningi ljósátu. Skíðishvalirnir lifa að langmestu leyti á ljósátu og stórir stofnar sjófugla eins og stuttnefja og lundi lifa einnig að stórum hluta á ljósátu.

Ljósátan hrygnir í yfirborðslögunum og fer hrygning fram um svipað leyti og vorvöxtur plöntusvifsins nær hámarki eða í apríl til maí. Þá er tryggt að ungviðið hafi fæðu til vaxtar strax á fyrstu þroskastigunum.

Eggjunum er hrygnt út í sjó og berast þau um í svifinu á meðan þau þroskast. Þegar lirfurnar klekjast úr eggjunum eru þær gjörólíkar fullorðnu dýrunum að útliti, en með endurteknum skelskiptum þroskast ungviðið og líkist sífellt meira þeim fullorðnu þar til það að lokum tekur á sig lögun fullorðnu dýranna.