MÖTTULDÝR

Ascidiacea

Möttuldýr eru föst á botni og eru ýmist stök eða mörg saman í sambúi. Stök möttuldýr eru oftast sekklaga, með leðurkennda húð og tvo áberandi stúta. Sambýlismöttuldýr eru hins vegar oftast skorpulaga. Dýrin liggja þá í sameiginlegum hjúp sem oft er hlaupkenndur og gagnsær. Hjá sumum þeirra mynda dýrin fallegt, litskrúðugt mynstur í möttlinum. Stök dýr eru oftast á bilinu einn til 10 cm á hæð en sambýli möttuldýra geta orðið 20 til 30 cm í þvermál.

Möttuldýrin hafa tvö op sem liggja hvort nálægt öðru. Sjór streymir inn um annað en út um hitt. Inni í dýrinu er þéttriðið tálknanet. Það notar dýrið til súrefnisupptöku og til að sía fæðuagnir úr sjónum sem streymir í gegnum dýrið.

Möttuldýr eru eru í flokki með svokölluðum seildýrum eins og hryggdýr. Á lirfustigi hafa þau frumstæða hryggjalengju, svokallaðan seil, eftir endilöngu bakinu. Seillinn hverfur þegar þau setjast á botninn og myndbreytast úr lirfu í fullorðið dýr.


Möttuldýr er að finna neðst í fjörum og neðan fjörunnar allt niður á djúpbotninn. Þau eru bæði á grjótbotni og á sand- og leirbotni. Til eru möttuldýr sem lifa í svifinu alla ævi. Þau eru tunnulaga, glær og hlaupkennd og hanga mörg saman í keðjum.

Möttuldýr lifa á smáum svifþörungum og lífrænum ögnum sem þau sía frá sjónum með fínriðnu tálknaneti sem sjórinn streymir í gegnum inni í dýrinu.

Möttuldýrin eru tvíkynja þ.e. sama dýrið er bæði karl- og kvenkyns, en frjóvgun verður þó alltaf milli kynfrumna frá mismunandi einstaklingum. Dýrin losa kynfrumur út í sjóinn og þar verður frjóvgun. Lirfan er stuttan tíma í svifinu, stundum einungis í nokkrar klukkustundir og sjaldan meira en örfáa daga. Síðan sest hún og myndbreytist, festir sig við botninn og fær lögun fullorðna dýrsins.

Kynlaus æxlun er einnig til meðal möttuldýra. Hjá stökum möttuldýrum vex sepi út úr fullorðna dýrinu sem losnar frá og festir sig strax við botninn og verður að nýjum einstaklingi. Hjá sambýlismöttuldýrum bætist nýtt dýr við inni í sameiginlegum möttlinum.

Möttuldýr eru stundum nefnd hraunmiga vegna þess að þegar grjót með möttuldýrum kemur með veiðarfærum upp í bát, herpir dýrið sig saman og sprautar um leið mjórri vatnsbunu út um annan stútinn.