HRÚÐURKARL

Semibalanus balanoides

Fjörukarl er hrúðurkarlstegund sem er 1-1,5 cm í þvermál og er gerð úr sex gráhvítum kalkplötum. Hann er oftast í laginu eins og lítið keilulaga eldfjall og snýr opið upp. Hæð og lögun fjörukarlsins er allt önnur þar sem dýrin standa mjög þétt saman. Þau verða þá mjó og jafnbreið upp úr og geta orðið allt að fjórum cm á lengd. Botnplatan er úr himnu ólíkt öðrum hrúðurkarlategundum í fjörunni. Þeir hafa botnplötu úr kalki sem verður eftir á klöppinni þegar hrúðurkarlinn brotnar og deyr. Ef horft er ofan á fjörukarlinn sést að opið er tígullaga og lokað með fjórum kalkplötum. Dýrið sjálft liggur inni í kalkskelinni og snýr magahlið og útlimum upp. Það er bleikt á litinn.

Fjörukarlinn er algengasta tegund hrúðurkarla í fjörum. Þar sem fjörukarlinn vex í stórum breiðum sjást hvítir flekkir langt að. Víða mynda þeir samfellt belti efst í fjörunni sem er nefnt fjörukarlabeltið.

Fjörukarlinn getur orðið allt að átta ára gamall. Þeir einstaklingar sem lifa ofan til í fjörunni vaxa hægar og verða eldri en þeir sem lifa neðar í fjörunni.


Spila myndband

Fjörukarlinn er algengur allt í kringum Ísland. Algengastur er hann um og ofan við miðja fjöru en lifir þó einnig neðst í fjörunni og neðan fjörunnar á grunnsævi. Fjörukarlinn lifir fastur við klappir, steina og skeljar. Ef þang er mjög vöxtulegt í fjörum er minna um fjörukarlinn. Þangið sveiflast í ölduhreyfingunni og kemur í veg fyrir að lirfur fjörukarlsins geti fest sig. Hann er þó bæði að finna í brimasömum fjörum fyrir opnu hafi og í skjólsælum fjörum inni á fjörðum og vogum og einnig nærri árósum þar sem selta sjávar er mun minni en í fullsöltum sjó.

Fjörukarlinn lifir í Norður-Atlantshafi frá Svalbarða í norðri suður til norðvesturstrandar Spánar. Við Grænland og austurströnd Norður-Ameríku suður til Karólínu í Bandaríkjunum. Hann lifir einnig í Norður-Kyrrahafi

Fjörukarlinn lifir á litlum svifdýrum og lífrænum ögnum sem berast með sjónum. Hann notar fæðuanga, sem eru ummyndaðir útlimir með þéttum hárum, til að veiða dýrin. Hann teygir fæðuangana, sem saman mynda hálfgerðan háf, upp um opið og grípur svifdýr sem rekur hjá. Ef sjórinn er á hreyfingu heldur hann örmunum kyrrum og býður þess að dýr festist í "háfnum", ella sveiflar hann þeim með reglubundnum hætti og reynir þannig að grípa dýr í nágrenninu. Fjörukarlinn nærist eingöngu á flóðinu eða meðan hann er á kafi. Vöxturinn er háður því hversu mikla fæðu hann fær. Fjörukarlar sem lifa neðarlega í fjörunni eru lengur í kafi og geta veitt í lengri tíma en dýr sem lifa efst í fjörunni, neðri dýrin vaxa líka hraðar.

Nákuðungur er rándýr sem lifir að stórum hluta á fjörukörlum. Hann hefur öfluga skráptungu sem hann notar til að bora sig í gegnum kalkskel fjörukarlsins.

Fjörukarlinn er tvíkynja en æxlun verður ávallt milli tveggja dýra. Dýrin verða kynþroska eins til tveggja ára gömul og æxlunin fer fram á haustin. Dýrin hafa langt typpi sem þau teygja yfir í næsta dýr og frjóvga þar eggin. Eftir frjóvgun missa þau typpið og eggin taka að þroskast og verða af lirfum meðan þau eru enn inni í fjörukarlinum.

Um vorið sleppa dýrin lirfunum út í sjó. Þær berast upp í yfirborðslög sjávar og hafast þar við í nokkrar vikur. Í svifinu éta lirfurnar kísilþörunga og aðra smávaxna svifþörunga. Lirfurnar taka miklum útlitsbreytingum meðan þær eru í svifinu en áður en þær setjast í fjöruna hafa þær myndað um sig tvær kítínskeljar og eru orðnar rúmlega millímetri í þvermál. Eftir að þær setjast á botninn festa þær sig og fá fljótt útlit foreldranna.

Fjörukarlinn sleppir lirfunum í byrjun sumars þegar vorblómi svifþörunganna stendur yfir. Hann stillir lirfusleppinguna af miðað við vorblómann með því að sérstakur klakvökvi losnar frá fullorðna dýrinu við að éta svifþörungana. Við þetta örvast lirfurnar þannig að þær rífa sig lausar úr egghulstrinu. Með því að lirfurnar losna þegar svifþörungar eru í blóma er tryggt að þær fá næga fæðu í svifinu og geta safnað forða áður en þær setjast aftur á botninn, einum til tveimur mánuðum seinna.