RAUÐÁTA
Calanus finmarchicus
Rauðáta er krabbadýr. Hún er um 4 mm að stærð. Hún er rauðleit og stafar liturinn af næringarforða sem hún safnar í líkamann. Líkami dýrsins skiptist í frambol og afturbol. Frambolurinn er gerður úr sex liðum en afturbolurinn hefur fimm liði. Eitt auga er framarlega á frambol, fyrir miðju. Rauðátan hefur tvö pör af fálmurum og er fremra parið margfalt lengra en það aftara, um það bil jafn langt og allt dýrið. Undir líkamanum, umhverfis munninn, eru fjögur pör af munnörmum sem eru ummyndaðir útlimir sem dýrið notar til að matast með. Undir bolnum aftan við munninn taka við fimm sundfótapör.
Í kalda sjónum djúpt úti fyrir Norðurlandi eru tvær tegundir krabbaflóa, náskyldar rauðátunni, það eru póláta (Calanus hyperboreus) og ísáta (Calanus glacialis). Pólátan er stærst þessara tegunda og getur orðið um 7 mm á lengd.
Rauðátan lifir í norðanverðu Norður-Atlantshafi. Hún býr við strendur Evrópu frá Svalbarða og Barentshafi suður til Ermarsundsins. Við austurströnd Norður-Ameríku nær útbreiðslusvæðið frá Baffinslandi í Kanada suður til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hér við landið er rauðátan allt í kringum land.
Rauðátan lifir allt æviskeið sitt í svifinu. Hún er eitt algengasta dýrið í svifinu við Ísland. Hún er um 3 til 4 mm að stærð og er oftast meira en 50% einstaklinganna í dýrasvifinu og á sumum svæðum er hún meira en 90% þeirra.
Rauðátan hefur hærða anga eða munnlimi sem hún notar til að sía fæðuagnir úr sjónum. Hún velur fæðuagnir af hæfilegri stærð úr þeim sem festast á hárasíunum. Rauðátan étur fyrst og fremst svifþörunga. Lengi var talið að rauðátan lifði eingöngu á þörungum en í seinni tíð hafa menn komist að raun um að auk þörunganna étur rauðátan heilmikið af smáum svifdýrum. Af þörungum étur hún skoruþörunga, kísilþörunga og kalksvifþörunga og af dýrum étur hún einkum ýmsar tegundir frumdýra sem eru í svifinu.
Allmargar tegundir fiska éta rauðátu. Fiskar eins og loðna, sandsíli og síld lifa að mestu leyti á rauðátu. Mun fleiri fiskar éta þó egg, lirfur og ungstig rauðátunnar meðan þeir eru á lirfu- eða seiðastigi. Til dæmis er aðalfæða loðnu -, sandsíla -, þorsk - og ýsulirfa egg og lirfur rauðátunnar á meðan þau eru í svifinu.
Rauðátan hrygnir í yfirborðslögunum og fer hrygningin fram um svipað leyti og vorvöxtur plöntusvifsins nær hámarki eða í apríl til maí. Þá er tryggt að ungviðið hafi fæðu til vaxtar strax á fyrstu þroskastigunum. Þegar lirfur rauðátunnar klekjast úr eggi eru þær gjörólíkar fullorðnu dýrunum. Þær þroskast og við hver skelskipti breytist útlit þeirra, þar til þær fá að lokum útlit fullorðnu dýranna eftir 11 skelskipti.
Hjá rauðátunni fyrir sunnan land verður hluti dýranna sem klekjast um vor kynþroska um mitt sumar og geta þá af sér nýja kynslóð. Önnur kynslóðin nær ekki að verða kynþroska fyrir haustið og leitar út á meira dýpi og til vetrarheimkynnanna, sem eru aðallega í djúpinu utan við landgrunnið. Í lok vetrar koma þau aftur upp úr djúpinu, verða fljótlega kynþroska og hrygna. Rauðátan drepst eftir að hún hefur hrygnt. Fyrir norðan land nær aðeins lítill hluti rauðátustofnsins kynþroska sama árið og dýrin klekjast út en megnið af dýrunum leitar þá út á djúpið til vetursetu.