RITA

Rissa tridactyla

Hún er ein af litlu máfunum. Ritur eru 40 cm langar og þyngd þeirra er 350–500 g. Vænghaf er 1–1,2 m. Á sumrin er hún grá á bakið með svarta vængbrodda en að öðru leyti hvít. Nefið er gult og fíngert og fæturnir stuttir og svartir. Á veturna dökknar hausinn, sérstaklega að aftan. Enginn litamunur er á kynjunum en karlfuglarnir eru ívið stærri en kvenfuglinn.

Ritur eru félagslyndar. Þær eru strandfuglar, mjög léttar á flugi og sjást oft langt úti á hafi en sjaldan inn til landsins. Oftast eru þær hljóðlátar en hávaðinn í þeim getur orðið furðulega mikill komist þær margar í æti og eins yfir varptímann.


Spila myndband

Rita Ritur verpa víða á norðurslóðum bæði við Atlantshaf og Kyrrahaf. Hér eru þær með algengustu sjófuglum og verpa allt í kringum landið.

Fæða ritunnar er öll sótt í yfirborð sjávar. Stundum ræna þær fæðu frá öðrum fuglum til dæmis lundum, sem eru að bera fæðu til unga sinna.

Fjöldi eggja: 2-3
Eggjaskurn: ljós með dökkum flikrum
Stærð eggja: 5,5 cm að lengd og 4 cm í þvermál

Riturnar eru bjargfuglar. Vörpin eru oft þétt og hávaðasöm og hreiðrunum tyllt á örsmáar syllur. Hreiðurefnin eru land- og sjávargróður límdur saman og við undirstöðuna með driti. Sömu hreiðrin eru notuð ár eftir ár ef þau skemmast ekki í vetrarveðrum. Báðir foreldrar sjá um ásetu og fæðuaðdrætti í unganna.

Fyrrum voru rituungar mikið veiddir til átu. Einnig voru egg tekin og eitthvað er gert af því enn í dag. Ritudúnn var notaður í rúmföt og sessur.

Önnur nöfn ritunnar eru rissa, skegla og sigga.

Afturtá ritunnar er mjög lítil. Þaðan kemur latneska nafnið tridactyla (þrítáa).

Í ágúst 1994 rak mikið af dauðum, grindhoruðum ritum í Vestmannaeyjum.

Rituger (rituhópur) á hafi úti vísar sjómönnum á fisk.

Það sama gilti um rituna og marga aðra sjófugla, að ef hún flaug samsíða bát á leið í veiðiferð vissi það á gott en flygi hún á móti var best að vera við öllu búinn.