SÍLD
Clupea harengus
Síld er rennilegur fiskur, um 30-40 cm að lengd. Hún er fremur há og þunnvaxin. Hausinn er í meðallagi stór með fremur stór augu. Kjafturinn er lítill en síldin getur skotið fram neðri kjálka og þá þenst kjafturinn út í víðan stút. Hún er yfirmynnt sem þýðir að neðri skolturinn nær fram fyrir þann efri. Uggar eru nokkuð litlir. Bakugginn er á miðju baki, raufaruggi aftur undir stirtlu og kviðuggar undir miðjum bol. Eyruggar eru litlir. Stirtlan er stutt en sporðurinn er stór og sýldur sem kallað er, þ.e. klofinn að aftan. Hreistrið er fremur stórtgert og þunnt og losnar auðveldlega. Það er með áberandi vaxtarbaugum og er notað til að greina aldur síldarinnar.
Á baki er síldin blágræn með fjólublárri slikju. Á hliðunum er hún silfurglitrandi en trýni er dimmblátt og uggarnir gráir.
Síldin finnst allt í kringum Ísland. Hún er uppsjávarfiskur sem er bæði inni á fjörðum og úti á landgrunninu.
Síldin lifir í Norður-Atlantshafi, við strendur Evrópu frá Svalbarða og Barentshafi suður til Biskajaflóa og við austurströnd Norður-Ameríku frá Labrador suður til Hatterashöfða í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Hún finnst einnig í Norður-Kyrrahafi.
Síldin lifir á ýmiss konar sviflægum krabbadýrum, en étur einnig fisklirfur og önnur svifdýr. Aðalfæða hennar er krabbaflóin rauðáta. Rauðátan heldur sig oft í þéttum flekkjum nálægt yfirborði. Síldin syndir í gegnum flekkina með gapandi kjaftinn og síar rauðátuna úr sjónum. Sjórinn fer út á milli tálknanna en þau mynda þétta grind inni í kjaftinum sem kemur í veg fyrir að átan skolist út með sjónum.
Síldin hrygnir á sand- eða malarbotni á 50 til 150 m dýpi við suður- og vesturströndina. Hrognin límir hún við sandkornin og þar liggja þau þar til þau klekjast út. Lirfurnar fljóta þá upp undir yfirborð og hafast þar við í svifinu. Lirfurnar nærast í upphafi á forðanæringu sem þær hafa í kviðpoka. Þegar sá forði er búinn verða þær sjálfar að afla sér fæðu. Til að byrja með lifa þær á lirfum rauðátu en eftir því sem síldarlirfurnar stækka geta þær tekið stærri fæðu. Næsta sumar, þegar þær eru orðnar fjögurra til fimm sentímetra langar, breytast lirfurnar. Þær fá hreistur og ugga og líkjast foreldrunum í útliti og kallast nú seiði.
Síldin verður kynþroska þegar hún er fjögurra eða fimm ára, þá 27 til 28 cm löng. Algengt er að síld verði 14 til 15 ára gömul.
Síld hefur verið veidd við Ísland frá landnámsöld. Þegar síldveiðar hér við land voru mestar upp úr miðri 20. öldinni byggðist veiðin að langmestu leyti á svokallaðri Norðurlandssíld eða norsk-íslenskri vorgotssíld. Sú síld hrygndi í Noregi en kom í gríðarmiklum mæli til Íslands í fæðuleit á sumrin. Rétt fyrir 1970 hrundi stofn norsk-íslensku síldarinnar. Þó að stofninn hafi vaxið verulega á síðustu árum hefur hann ekki gengið aftur til Íslands svo neinu nemi. Íslendingar hafa þó veitt norsk-íslensku síldina austur í Noregshafi síðan 1994, mest rúm 200 þúsund tonn.
Síldin ferðast oftast um í stórum torfum nálægt yfirborði sjávar. Á daginn eru torfurnar þéttar og stutt bil á milli fiskanna, en á nóttunni dreifast fiskarnir gjarnan meira og halda sig dýpra. Á vetursetustöðvunum getur síldin safnast saman í gríðarlega stórar torfur. Dæmi eru um að í slíkri torfu séu mörg hundruð milljón síldar. Á veturna er síldin yfirleitt nær yfirborði á nóttunni.