SANDREYÐUR

Balaenoptera borealis

Sandreyður er talsvert minni en langreyður eða 14 til 16 m á lengd og vegur um 20 tonn. Höfuðið er fremur stórt, efri skoltur styttri en sá neðri, frammjór og eftir honum endilöngum er hryggur. Blástursholurnar eru aftarlega á skolthryggnum. Langfellingar (rengi) liggja undir neðri skolti og ná aftur undir miðjan kvið og enda nokkuð fyrir framan nafla. Hornið er aftarlega á baki, fremur hátt og aftursveigt. Bægslin eru tiltölulega löng og eru hátt uppi á hliðunum rétt fyrir aftan augu.

Sandreyður er dökkgrá eða blágrá á lit, gljáandi á baki og hvít fremst á kvið en grá aftan til. Skil milli lita eru mjög ógreinileg. Skíðin sem hanga innan á efra skolti eru svört með hvítum tægjum, 60 til 65 cm löng.


Spila myndband

Sandreyður Sandreyðurin kemur upp að landgrunninu suðvestanlands í fæðisgöngur seinni hluta sumars. Í lok september og í október fara dýrin til baka til vetursetustöðvanna suður í höfum. Á meðan sandreyðurin er hér við land er hún algengust úti við landgrunnsbrún suðvestan lands.

Á meðan sandreyðurin er á miðunum hér við land lifir hún nær eingöngu á svifkrabbadýrum, einkum ljósátu. Ekkert er vitað um fæðu hennar á vetursetustöðvunum en líklega lifir hún þar einnig á smáum svifkrabbadýrum.

Á árunum 1949 til 1985 voru veiddar að meðaltali um 70 sandreyðar á ári hér við land.

Sandreyðurin syndir mest við yfirborðið. Blástur hennar er ekki eins áberandi og hjá langreyðinni. Þegar hún kafar lætur hún sig sökkva í láréttri stöðu en lyftir ekki sporði upp úr sjó.

Mökun fer fram á vetursetustöðvunum, sem taldar eru vera langt fyrir sunnan Ísland, í nóvember og desember. Kýrnar ganga með í 11 til 12 mánuði. Þungaðar kýr fara með hjörðinni í fæðisgöngur norður á bóginn um sumarið. Burður verður eftir að dýrin eru aftur komin á vetursetustöðvarnar. Kálfurinn er háður móðurmjólkinni fyrstu mánuðina og fylgir kúnni til fæðustöðvanna við Ísland.

Hægt er að aldursgreina sandreyðina á vaxtarbaugum í eyrnatappa. Elsta sandreyður sem hefur verið aldursgreind við Ísland var 54 ára gömul. Sandreyðurin verður kynþroska þegar hún hefur náð um 12 m lengd og er þá venjulega 8 til 10 ára gömul.