SKÖTUSELUR

Lophius piscatorius

Skötuselur er frambreiður og afturmjór. Hann er flatur og hausinn er feiknastór, breiður, beinaber og eru gaddar víða á haus. Kjaftur er mjög víður með stórum og hvössum tönnum í tveimur röðum í báðum skoltum. Fiskurinn er yfirmynntur og nær neðri skolturinn alllangt fram fyrir neðri skolt. Ekkert hreistur er á skötusel og er húðin slímug.

Tveir bakuggar eru á fiskinum, sá fremri rétt aftan við haus, stuttur með þremur göddum og sá aftari á stirtlu. Raufaruggi er aftan til neðan á stirtlu. Eyruggar eru stórir og minna á selshreifa og fær skötuselur nafn sitt af því. Fremst ofan á hausnum eru þrír angar, tveir eru fremst á snjáldri og er húðflipi efst á þeim fremri. Húðflipann notar skötuselurinn ti l að lokka til sín bráð.

Kögur er á neðri skolti og aftur með hliðum. Þegar styggð kemur að skötuselnum gerir hann sig breiðan og ógnandi með því að spenna út eyruggana og breiða úr kögrinu.


Spila myndband

Skötuselur Við Ísland verður skötusels vart allt í kringum land en oftast við suður- og suðvesturströndina. Skötuselur er botnfiskur sem lifir á um 20 metra til 1800 metra dýpi.

Skötuselurinn lifir í austanverðu Atlantshafi og í Miðjarðarhafi. Útbreiðslusvæðið nær frá Atlantshafsströnd Marokkó norður til Norður-Noregs. Hann lifir umhverfis Bretlandseyjar, við Færeyjar og Ísland.

Skötuselur Á matseðli skötuselsins er aðallega ýmiss konar fiskmeti eins og þorskur, ýsa, langa, keila og spærlingur, einnig ýmsir flatfiskar. Skötuselur á humarslóð étur gjarnan einn og einn humar og á grunnslóð er trjónukrabbi einnig étinn.

Eftir hrygningu hanga eggin saman í slími og mynda þunna slæðu sem svífur í sjónum þar til eggin klekjast. Lirfurnar eru um 4,5 mm við klak og sviflægar. Þegar seiðin eru orðin 6 til 8 cm löng leita þau botns á grunnsævi. Skötuselurinn vex hratt fyrstu árin og nær um 50 cm lengd eftir 3 ár. Hann verður kynþroska 4 til 5 ára gamall.