SPRETTFISKUR

Pholis gunnellus

Sprettfiskur er langur og mjór botnfiskur. Hann er 15 til 25 cm langur, þunnvaxinn. Kjafturinn er lítill og dálítið uppstæður. Augu eru lítil og sitja ofarlega. Bakuggi er lágur og nær samfellt frá höfði aftur að sporði. Raufaruggi, sem er um helmingi styttri, er undir stirtlunni og nær frá gotrauf aftur að sporði. Eyruggar eru litlir og bogadregnir fyrir endann. Sporðblaðka er lítil og nærri hringlaga.
Sprettfiskur er oftast brúnleitur á baki og síðum og ljósgulur á kvið. Röð af 11 til 13 dökkum flekkjum, með ljósum jaðri, liggur eftir endilöngum fiskinum ofan til á báðum síðum. Uggar eru rauðleitir.
Sprettfiskur getur orðið meira en 10 ára gamall. Hann vex hratt fyrstu árin og verður kynþroska strax á öðru ári.


Spila myndband

Við Ísland lifir sprettfiskur við alla landshluta. Mest er um hann við vesturströndina enda eru fjörur, aðalbúsvæði hans, víðáttumestar þar. Sprettfiskur lifir einnig neðan fjörunnar og hefur veiðst niður á meira en 100 m dýpi. Hann er fyrst og fremst í hnullungafjörum og leitar skjóls undir þangi og steinum þegar lágsjávað er en fer á stjá á flóðinu að leita sér fæðu. Á sumrin má finna sprettfisk upp í miðja fjöru en á veturna færir hann sig neðar í fjöruna og niður á grunnsævið.

Sprettfiskur lifir í Norður-Atlantshafi. Við Evrópustrendur lifir hann frá Norður-Noregi suður til Ermarsunds. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir sprettfiskur frá Baffinslandi suður til New York í Bandaríkjunum.

Sprettfiskur Sprettfiskurinn lifir aðallega á smáum fjörudýrum, botnkrabbaflóm, smáum marflóm og burstaormum.

Sprettfiskur hrygnir á tímabilinu frá nóvember til febrúar. Hann hrygnir aðallega undir steinum, um eða neðan við stórstraumsfjörumörk í hnullungafjörum. Pörin halda sig saman í nokkurn tíma fyrir hrygningu. Hrygnan hrygnir eggjunum í einn kökk sem hún þjappar saman í reglulega kúlu um 5 cm í þvermál. Foreldrarnir halda sig við hrognakúluna þar til hrognin klekjast. Þau hringa sig utan um hana, ýmist annað eða bæði.

Þegar hrognin klekjast út fara lirfurnar upp í sjó og hafast við í svifinu þar sem þær vaxa frá vori fram á haust. Í ágúst eru lirfurnar orðnar að 3,5 cm löngum seiðum og leita botns.

Þó að sprettfiskur sé smár getur hann synt nokkuð hratt eins og nafnið gefur til kynna. Hann hefur ekki hreistur og roðið er slímugt svo að erfitt getur verið að handsama hann í fjörunni. Slímið hjálpar honum einnig að halda sér rökum þegar lágsjávað er. Flestir fiskar þurfa að fá sjó í gegnum tálknin til að fá súrefni og koma í veg fyrir að kafna. Sprettfiskurinn fær að sjálfsögðu ekki sjó í tálknin meðan hann er á þurru en fær súrefni úr andrúmsloftinu í gegnum húðina.

Sprettfiskur er stundum kallaður teistufiskur eða teistusíli vegna þess að hann er ein meginfæða teistu hér við land.