STEYPIREYÐUR
Balaenoptera musculus
Steypireyður er stærst allra hvala og jafnframt stærsta dýr jarðarinnar. Hún er 25 til 30 m á lengd og vegur þá 110 til 130 tonn. Hún er rennileg með nokkuð stóran og breiðan haus og mjókkar aftur. Munnvikin ná aftur fyrir augu og undir neðri skolti eru reglulegar húðfellingar (rengi) sem liggja langsum meira en hálfa leið aftur að sporði. Engar tennur eru í munni steypireyðarinnar en neðan úr efri skolti hanga um 700 hornplötur, skíði. Úr jöðrum skíðanna eru löng og stíf hár sem hún notar til að sía fæðuna úr sjónum.
Bægslin eru fremur lítil, hvít að neðan og með hvítum jöðrum og eru uppi á miðri síðu skammt aftan við augu. Hornið er lítið og er mjög aftarlega á bakinu. Steypireyðurin er gráflikrótt eða bláleit og með hvítum dílum á hliðum og á kvið. Blástursopið er ofan á höfði á móts við augun. Þegar steypireyðurin kemur upp að yfirborði til að anda er blástur hennar áberandi, hár og stendur beint upp í loftið.
Aðalfæða steypireyðarinnar á miðunum hér við land er ljósáta. Fiska étur hún ekki.
Vegna stærðar sinnar var steypireyður eftirsótt veiðidýr. Veiðar á henni voru því meiri en stofninn þoldi og fækkaði henni verulega um aldamótin 1900. Veiðar á steypireyði voru bannaðar árið 1959. Eftir það hefur steypireyðinni fjölgað smám saman aftur en á sennilega enn langt í land til að ná aftur fyrri stofnstærð.
Steypireyðarkýrnar bera á sumrin eftir um 12 mánaða meðgöngu. Eftir burð fylgir kálfurinn kúnni og er með henni í 6 til 7 mánuði og nærist á feitri og næringarríkri móðurmjólkinni. Á þeim tíma þyngist kálfurinn að meðaltali um 90 kg á dag.