HAFÖRN
Haliaeetus albicilla
Haförninn (sumir hafa nafnið kvenkyns) er stærsti ránfugl landsins og oft kallaður konungur íslenskra fugla.
Hann er 7090 cm langur og 3,57,5 kg þungur. Vænghafið er firnamikið eða 22,4 m og vængirnir breiðir með útstæðum flugfjöðrum á vængendunum. Liturinn er brúnn en hann lýsist með aldrinum sérstaklega á stéli og höfði. Nefið, sem er stórt og krókbogið, er dökkt á ungfuglum en verður síðan gult. Fætur eru gulir með dökkum, beittum klóm. Enginn munur er á lit eftir kynjum eða árstíðum.
Fram undir lok 19. aldar urpu ernir um allt land en var síðan nánast útrýmt með eitri og skotveiði.
Hann er ófélagslyndur staðfugl.
Hann tekur mikið fisk og hræ og einnig fugl á sundi en er ekki nógu flugfimur til að ná fuglum á flugi. Vitað er að ernir hafa tekið lömb og fleiri smærri dýr. Bráð sína flýgur hann strax með á afvikinn stað. Hann gerir mikinn usla í vörpum, t.d. æðarvörpum, þó að hann fljúgi bara yfir þau.
Fjöldi eggja: 2
Eggjaskurn: hvít
Stærð eggja: 7,9 cm að lengd og 5,9 cm í þvermál
Kvenfuglinn, assan, er til muna stærri en karl hennar. Þau halda tryggð hvort við annað og óðal sitt ævilangt. Hreiðrið er skammt frá sjó eða veiðivötnum, stórt og gróft. Eggin eru oft tvö, ljós að lit, og situr assan ein á þeim. Sjaldan kemst þó nema annar unginn upp. Foreldrarnir flytja báðir æti til unganna, oft meira en þeir torga svo að fæða hleðst upp. Bannað er að fara nær arnarhreiðri en 500 m.
Örninn hefur aldrei svo vitað sé verið nýttur á neinn hátt. Aftur á móti hafa menn óttast um búsmala sinn og jafnvel börn fyrir þessum kröftuga ránfugli.
Því var trúað að börn yrðu minnug ef þau drykkju í gegnum fjöðurstaf arnarfjaðrar.
Vísindanafnið albicilla þýðir með hvítt stél.
Um aldamótin 1900 voru tveggja mánaða vinnumannslaun greidd fyrir arnardráp.
Ernir voru alfriðaðir á Íslandi árið 1913.
Árið 1920 voru arnarpör á landinu færri en 20 og árið 1964 voru þau enn aðeins 19.
Í lok tuttugustu aldar voru um 42 arnarpör á Íslandi og heildarfjöldinn um 150 fuglar.
Í Færeyjum var haferninum eytt fyrir aldamótin 1700.
Á Íslandi eru þekkt um 160 arnarsetur, forn og ný, auk þess mörg örnefni tengd örnum.
Ernir hafa tekið börn í klærnar og flogið af stað með þau, síðast mun það hafa gerst á Íslandi í júní árið 1932.
Það var trú fólks að smiðjur brynnu ekki ef arnarfótur væri festur við fýsibelginn.
Þangað safnast ernirnir sem hræið er.