TJALDUR

Haematopus ostralegus

Haematopus ostralegus Tjaldur er einn af þessum fuglum sem er stöðugt í sparifötunum. Hann er vaðfugl með hvíta bringu, svart höfuð og bak. Nefið er rautt eins og fætur og augnumgjörð. Tjaldar eru 40–45 cm langir og um 600 g að þyngd. Vænghafið er 80–85 cm.


Spila myndband

Tjaldur Tjaldar verpa víða við strendur NV-Evrópu. Þeir finnast líka hér og þar í S- og A-Evrópu allt austur í N-Asíu. Hér er tjaldur algengur meðfram allri ströndinni og leitar líka inn til landsins. Flestir íslenskir tjaldar fara til Bretlands á veturna

Í fjörum éta tjaldar mest burstaorma og skeldýr. Þeir stinga nefinu inn á milli skeljanna og klippa í sundur stóra lokunarvöðva skeldýrsins og geta síðan étið innihaldið allt í rólegheitum. Inn til landsins éta þeir ánamaðka og skordýr.

Fjöldi eggja: 3
Eggjaskurn: ljósbrún með dökkum flikrum
Stærð eggja: 5,5 cm á lengd og 4 cm í þvermál

Varptími hefst í byrjun maí. Hreiðrið er aðeins smádæld í möl eða sand en oft raða þeir smásteinum eða þangtægjum í kring. Þeir verpa oftast nálægt sjó eða á áreyrum og stundum jafnvel í vegkanta. Eggin eru oftast þrjú en flestir vaðfuglar eignast fjögur egg. Ólíkt flestum öðrum vaðfuglum matar tjaldurinn unga sína eina til tvær fyrstu vikurnar.

Tjaldurinn var áður talsvert veiddur til matar enda allstór fugl. Eins voru egg hans tínd og etin.

Tjaldurinn er þjóðarfugl Færeyinga.

Sumstaðar þykir það vita á rigningu ef mikið heyrist í tjaldinum.

Á dönsku heitir tjaldur strandskade.