TRJÓNUKRABBI

Hyas araneus

Trjónukrabbi er tiltölulega stór botnkrabbi. Skjöldurinn er perulaga, breiðastur aftan til og mjókkar fram í tvískipta trjónu. Skjöldurinn er 4–9 cm breiður. Augun standa á stuttum stilkum og eru í kverkum sitt hvorum megin framan til á trjónunni. Stuttir fálmarar koma úr skildinum rétt fram við augun og ná lítið eitt fram fyrir trjónuna. Skjöldurinn er ósléttur og hnúðóttur meðfram köntunum. Undan skildinum að aftan kemur flatur hali sem liggur undir dýrið og liggur þétt fram með kviðnum. Hjá kvendýrinu er halinn hringlaga en hjá karldýrunum eru hliðarlínurnar inndregnar.

Trjónukrabbinn hefur fjögur pör af gangfótum sem eru lengri en skjöldurinn. Framan við ganglimina eru tvær griptengur sem eru styttri en gildari en fæturnir og enda í sterklegri kló. Trjónukrabbinn er brúnn eða rauðbrúnn á litinn að ofan en nærri hvítur að neðan.


Spila myndband

Trjónukrabbinn lifir í Norður-Atlantshafi og nær útbreiðsla hans frá Barentshafi í norðri suður til Ermarsundsstrandar Englands. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hann frá Labrador suður til Rhode Island í Bandaríkjunum.

Við Ísland er trjónukrabbi algengur við alla landshluta. Hann lifir á klappar-, grjót- og sandbotni frá lágfjörumörkum niður á 200 m dýpi en er algengastur grynnra en á 50 m dýpi.

Trjónukrabbinn hefur fjölbreyttan matseðil. Stór hluti af fæðu hans eru þörungar en hann étur einnig önnur dýr eins og sæfífla og fleira. Hann étur einnig hræ ef hann nær í.

Eftir að trjónukrabbinn hefur myndað um sig skel stækkar hún ekki. Á meðan hann er að vaxa þarf hann því oft að skipta um skel og myndar þá utan um sig stærri og stærri skel. Þegar ný skel myndast utan um líkamann blæs hann sig út svo að skelin verði vel við vöxt.

Mökun fer fram þegar kvendýrin skipta um skel. Karlinn velur sér kvendýr sem hann heldur þar til hún fer í skelskipti og getur þurft að bíða í nokkrar vikur eftir því. Kvendýrin hrygna svo eggjum sem festast undir halanum á kviðnum. Þar eru þau þar til þau klekjast út. Þá skríða út lirfur sem fara upp undir yfirborð og hafast við í svifinu um nokkurra mánaða skeið áður en þær setjast á botninn aftur. Meðan lirfurnar eru í svifinu stækka þær og breytast talsvert í útliti í hvert skipti sem þær hafa skelskipti. Það er fyrst eftir að þær setjast á botn að þær fara að líkjast foreldrunum.

Trjónukrabbinn nefnist skrautkrabbi á dönsku. Þá nafngift hefur hann fengið af því að skjöldurinn á ungum trjónukröbbum er oft þakinn ásætudýrum og þörungum svo að erfitt getur verið að koma auga á hann innan um botngróðurinn. Trjónukrabbinn skreytir sig sjálfur þannig að hann slítur þörunga og dýr af botninum með gripklónni og ber að munni. Þar framleiðir hann lím sem hann ber á fenginn og festir síðan á bakið.