UFSI
Pollachius virens
Ufsi er bolfiskur sem er venjulega 70 til 100 cm langur. Hann er rennilegur, sívalur, gildastur um miðjuna og mjókkar jafnt til beggja enda. Haus er miðlungsstór og sléttur. Kjaftur er svartur að innan og neðri skoltur nær lítið eitt fram fyrir efri skolt. Ufsi hefur þrjá bakugga og er sá í miðjunni stærstur. Raufaruggar eru tveir, undir styrtlunni, og er sá fremri mun stærri en sá aftari. Sporður er í meðallagi og er sýldur sem kallað er, það er, hann hefur hvöss horn og er línan milli þeirra, aftan á sporði, inndreginn.
Ufsi er oftast blágrár á litinn, dökkur á baki en ljósari á hliðunum og nær hvítur á kvið. Rákin er hvít og liggur bein aftur eftir miðjum síðum. Ungur ufsi er oft rauðleitur.
Hér er ufsi algengur umhverfis allt land. Hann er algengur frá fjöruborði út að landgrunnsbrún og veiðist bæði uppi í sjó og allt niður á 450 m dýpi. Algengt er að finna smáufsa í torfum nálægt landi og er hann ásamt sandkola og marhnúti uppistaðan í afla bryggjuveiðikrakka.
Ufsi lifir í Norður-Atlantshafi. Hann lifir á svæðinu norðan frá Barentshafi suður til Gíbraltarsunds. Við austurströnd Norður-Ameríku er útbreiðslusvæði hans frá Labrador, suður á móts við Norður-Karólínu í Bandaríkunum.
Ufsinn lifir aðallega á loðnu og ljósátu. Meðan ufsinn er ungur étur hann svifdýr, mest ljósátu en einnig sviflægar marflær. Eftir því sem hann eldist eykst hlutdeild fisks í fæðu hans, fyrst og fremst loðnu en einnig étur stóri ufsinn síli, kolmunna og fleiri fiska. Hann étur einnig smokkfisk í nokkrum mæli.
Ufsinn ferðast um í torfum. Hann étur gjarnan svifkrabbadýr nálægt yfirborði og oft má sjá sjóinn krauma þegar smáufsatorfur eru í æti við yfirborðið.
Ufsinn hrygnir snemma miðað við aðra þorskfiska. Hann hrygnir aðallega á 100 til 150 m dýpi, byrjar venjulega að hrygna strax upp úr áramótum og hefur lokið hrygningu í mars. Ufsinn hrygnir uppi í sjó og verða eggin strax sviflæg og berast með straumum nálægt yfirborði. Eftir eina til tvær vikur klekjast lirfur, sem eru um 3,6 mm, úr eggjunum. Þær hafast við í svifinu í nokkra mánuði. Lirfan þroskast í seiði og leitar botns á grunnum svæðum, nálægt landi upp úr miðju sumri.
Ufsi er aðallega veiddur í botntroll og í net en einnig er nokkuð veitt af ufsa á handfæri og í dragnót. Hann er mjÖg góður matfiskur en er fremur lítið borðaður hér á landi. Megnið af aflanum er selt úr landi, saltað eða frosið.
Ufsinn er hraðsyndur og getur ferðast langar leiðir á stuttum tíma. Hann getur því auðveldlega flakkað á milli landa. Ufsar sem merktir hafa verið hér við land hafa veiðst við Noreg, Færeyjar og Skotland og þeir sem hafa verið merktir við Noreg hafa veiðst hér við land og við Færeyjar.