ÞARASTRÚTUR

Lacuna vincta

Kuðungurinn er fremur veikbyggður, sléttur á yfirborði, með kúptum vindingum sem ganga út í odd. Vindingarnir eru fimm til sex. Munnopið er stórt og dropalaga. Umhverfis það er skelin nokkuð þykkari en annars staðar. Þarastrúturinn er allt að 12 mm hár. Naflagat er í skoru á skelinni við munninn.

Skelin er gulleit með tveimur til fjórum dökkum röndum eftir endilöngum vindingunum. Stundum vantar rendurnar og er skelin þá ýmist gul eða rauðbrún. Dýrið sjálft er gult á lit með tveimur fálmurum á hausnum og sitja augun neðarlega á fálmurunum. Þarastrúturinn getur orðið rúmlega eins árs gamall.


Hér við land lifir þarastrútur allt í kringum land. Hann lifir aðallega á blöðum þörunga á grunnsævi en finnst stundum neðst í fjörunni t.d. á sagþangi og skúfþangi.

Þarastrúturinn lifir á svæðinu frá Svalbarða í norðri suður til Bretánskaga í Frakklandi. Við austurströnd N-Ameríku lifir hann frá Labrador í Kanada suður til New Jersey í Bandaríkjunum.

Þarastrúturinn lifir á þörungum. Algengast er að hann éti þara. Hann hefur hvassar tennur á skráptungunni sem hann notar við að raspa upp þarann. Tennurnar slitna en nýjar vaxa jafnóðum. Stundum verður svo mikið af þarastrút í þaraskóginum að hann étur upp þarann á skömmum tíma og getur það tekið nokkur ár fyrir þaraskóginn að komast aftur í fyrra horf.

Þarastrúturinn verpir eggjum í gulleita hlauphringi sem eru um 0,5 cm í þvermál. Kvendýrið festir eggjahringina á þörunga. Foreldrarnir deyja eftir hrygninguna. Þegar eggin klekjast út, berast lirfurnar strax út á sjó og hafast síðan við í svifinu og berast með straumum nálægt yfirborði í rúman mánuð. Sviflægu lirfurnar eru gerólíkar foreldrunum. Þegar þær setjast eru þær um 0,5 mm að stærð og mynda um sig skel og líkjast þá foreldrunum í útliti.

Í logni má sjá þarastrútinn á beit á þarablöðum efst á grunnsævinu og neðst í fjörunni. Þegar ölduhreyfingin eykst þarf hann að forða sér og færa sig dýpra þar sem meiri kyrrð er. Það gerir þarastrúturinn með sérstökum hætti. Hann lyftir fæti og framleiðir slímstreng sem flýtur upp í sjó og þegar hann er orðinn nógu langur lyftist skelin og berst með straumnum yfir á nýjan og hentugri stað.