DREYRAFJÖÐUR

Delesseria sanguinea

Dreyrafjöður er 10 til 30 cm hár rauðþörungur. Stuttur, sívalur og greinóttur stilkur vex upp af skífulaga festu. Út úr hliðum greinanna vaxa þunn, aflöng og lensulaga blöð með áberandi miðtaug og beinum ógreindum hliðaræðum sem ganga skáhallt upp frá miðtauginni. Blöðin eru heilrend en oft með bylgjóttum jaðri. Þau eru 10 til 25 cm löng og 3 til 7 cm breið. Dreyrafjöður er fagurrauð á litinn.

Dreyrafjöður er fjölær. Blöðin vaxa seinni hluta vetrar og eru heillegust, fullsprottin, seint á vorin. Þegar líður fram á sumarið fer blaðfaldurinn að slitna og á haustin rifnar hann frá miðstrengnum. Miðstrengurinn lifir af veturinn og eftir miðjan vetur fara ný blöð að vaxa út úr honum. Miðstrengurinn verður þá að stofni sem greinist meira og meira eftir því sem plantan eldist. Talið er að dreyrafjöður geti orðið meira en 10 ára gömul.

Dreyrafjöður líkist öðrum rauðþörungi, skarðafjöður, í útliti, sérstaklega síðsumars og á haustin þegar blöðin byrja að rifna. Hægt er að þekkja tegundirnar í sundur á því að æðarnar í blaði skarðafjaðrarinnar eru greinóttir og blaðröndin er skert og tennt en hjá dreyrafjöður eru blöðin heilrend með beinum, ógreindum hliðaræðum.


Dreyrafjöður vex í Norður-Atlantshafi eingöngu við strendur Evrópu. Hún vex frá Hvítahafi í norðri suður til Ermarsundsstrandar Frakklands. Við Ísland vex dreyrafjöður allt í kringum land en er þó sjaldgæf við Austurland.

Dreyrafjöður vex á klöppum eða stórum steinum, frá neðri mörkum fjörunnar niður á um 25 m dýpi. Hún er algengust á fremur brimasömum stöðum. Hún er áberandi á botninum innan um stórþara og vex stundum neðst á stilkum þarans.

Dreyrafjöður hefur ekki verið nýtt hér við land en í Evrópu er hún notuð í snyrtivöruframleiðslu.