HROGNKELSI

Cyclopterus lumpus

Hrognkelsi er klunnalegur fiskur sem oftast er 20 til 50 cm langur og er hæðin um helmingur af lengdinni. Haus er fremur lítill, snubbóttur og breiður að framan. Kjaftur er lítill með litlar en hvassar tennur. Framan á haus eru útstæðar, stuttar nasapípur.

Hrognkelsið hefur kamb fremst ofan á bakinu í stað fremri bakugga. Aftari bakuggi og raufaruggi eru stuttir en fremur háir. Sporðurinn er stuttur og breiður. Eyruggarnir eru stuttir, breiðir og ná næstum saman undir fiskinn. Á kviðnum neðan við eyruggana er sogblaðka sem hrognkelsið notar til að halda sér föstu við botninn þegar öldusog er mikið. Roðið á hrognkelsinu er mjög þykkt og nefnist hvelja. Það hefur ekki hreistur en er alsett beinkörtum sem gera það mjög hrjúft viðkomu. Auk þess eru stærri oddhvassar beinkörtur í þremur röðum á hliðunum frá haus aftur að sporði.

Talsverður munur er á útliti kynjanna og hafa þau hvort sitt nafn. Hængurinn, sem að jafnaði er mun minni en hrygnan, nefnist rauðmagi vegna rauða litarins sem kemur á kvið hans um hrygningartímann. Hann er grásvartur á baki en ljósari neðan til á síðunni. Allur hefur hann þó á sér rauðleitan blæ. Hrygnan er kölluð grásleppa. Hún er grásvört á baki og oft ljósgræn neðst á síðum og hvít á kvið.


Spila myndband

Hrognkelsi Hrognkelsi eru allt í kringum Ísland. Á veturna eru þau úti á rúmsjó, nálægt yfirborði. Upp úr áramótum, þegar fer að nálgast hrygningu, leita þau inn að landi og færa sig niður á botn. Hrognkelsi veiðast þá við botn frá fjöruborði allt niður á 100 m dýpi.

Hrognkelsið lifir í Norður-Atlantshafi. Við strendur Evrópu lifir það frá Barentshafi í norðri suður til Ermarsunds. Það er við Grænland og austurströnd Norður-Ameríku frá Baffinslandi suður til Hatterashöfða í Bandaríkjunum.

Hrognkelsi Fæða hrognkelsa í úthafinu er einkum ljósáta, uppsjávarmarflær, smáhveljur og fleira. Þegar þau koma inn til hrygningar hætta þau að éta. Seiðin sem lifa innan um þang í fjörunni éta mest ýmis smádýr, t.d. botnkrabbaflær og smáa burstaorma.

Hrognkelsi hrygna á vorin og fram á sumar. Hængurinn, rauðmaginn, kemur fyrr á hrygningastöðvarnar en grásleppan. Hrygningin fer fram á grjót- eða klapparbotni í þarabeltinu, frá fjöruborði niður á um 30 m dýpi. Þar festir hrygnan hrognin við botninn í stórum klösum og hængurinn frjóvgar þau um leið. Í nokkrar vikur eftir hrygningu, á meðan hrognin þroskast á botninum, gætir rauðmaginn þeirra. Hann heldur þeim hreinum og með því að blaka uggunum og blása sjó um þau, tryggir hann þeim nægt súrefni.

Eftir að seiðin klekjast út færa þau sig upp í fjöruna og lifa þar innan um þangið. Í fyrstu eru þau slétt og brúnleit en breytast fljótt, verða grá og mynda beinkörtur á hveljunni. Það er ekki fyrr en ári eftir að þau koma í fjöruna að þau fylgja fullorðnu fiskunum út á rúmsjó. Hrognkelsin verða kynþroska 5 til 6 ára gömul og er talið að þau leiti þá aftur á uppeldisslóðir sínar til hrygningar

Hrognkelsi eru veidd í talsverðum mæli við vestur- og norðurströndina. Þau eru veidd í net og er fyrst og fremst sóst eftir að veiða grásleppuna vegna hrognanna. Hrognin eru eftirsótt og hafa verið seld undir vöruheitinu kavíar þó að orðið kavíar eigi í raun við hin rándýru og eftirsóttu styrjuhrogn. Áður fyrr voru hrognkelsi veidd í meira mæli til matar. Rauðmaginn þótti bestur ferskur, snemma á vorin en grásleppan sigin eða söltuð.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagan Rauðmaginn, grásleppan og marglyttan. Hún er svohljóðandi:

Einu sinni gekk Jesús Kristur með sjó fram og sankti Pétur með honum. Kristur hrækti í sjóinn og af því varð rauðmaginn. Þá hrækti sankti Pétur í sjóinn og af því varð grásleppan og þykir hvort tveggja gott til átu og rauðmaginn jafnvel herramannsmatur. Djöfullinn gekk í humátt á eftir þeim með sjónum og sá hvað fram fór. Hann vildi þá ekki vera minnstur og hrækti líka í sjóinn en úr þeim hráka varð marglyttan og er hún til einskis nýt.