RATASKEL

Hiatella arctica

Rataskel er samloka með óreglulega kúptar skeljar og ber þess gjarnan merki að hún hafi vaxið í þrengslum. Nefið er nokkuð framan við miðja skel. Framendinn er oftast bogadreginn en afturendinn þverstífður og gapir þó að skeljarnar séu lokaðar. Út um gapið ganga inn- og útstreymispípurnar sem rataskelin notar til að dæla sjó í gegnum. Við hjörina er ein tönn á annarri skelinni en tvær á hinni.

Vaxtarbaugar mynda óreglulegar en áberandi fellingar á yfirborði skeljanna. Skelin er hvít en gulbrúnt hýði hylur hana að hluta. Rataskelin festir sig við botninn með sérstökum festiþráðum sem hún myndar með spunakirtli í skelinn.


Hér við land finnst rataskel allt í kringum land. Neðst í fjörunni má finna hana undir steinum. Í þarabeltinu neðan fjörunnar er rataskelin algeng og lifir innan í þöngulhausum þarans og teygir öndunarpípurnar út á milli festusprotana á þaranum. Hún finnst einnig á botninum innan um þarann allt niður á 40 m dýpi.

Útbreiðslusvæði rataskeljarinnar er við strendur Evrópu frá Barentshafi í norðri suður fyrir Gíbraltarsund (Njörvasund) til stranda Norður-Afríku. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hún frá Labrador í Kanada suður til Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Rataskelin dælir sjó inn í gegnum öndunarpípur inn í skelina og út aftur. Með sjónum berast lífrænar agnir og smáþörungar sem skelin nærist á.

Lítið er vitað um æxlun rataskeljarinnar annað en að hún losar egg og frjó út í sjó þar sem frjóvgun verður. Eggin þroskast í lirfur sem eru sviflægar og berast með straumum nálægt yfirborði í nokkurn tíma áður en þær setjast á botn.