ÆÐUR

Somateria mollissima

Æðarfuglar eru stórar endur. Þeir eru 50-70 cm langir, 1,5-2 kg á þyngd og með vænghaf sem er 80-100 cm. Kollurnar (kvenfuglarnir) eru í brúndröfnóttum felubúningi sem gerir þær nær ósýnilegar á hreiðrum, en steggirnir, sem einnig kallast blikar (karlfuglarnir) eru áberandi að lit, hvítir, svartir og ljósgrænir. Kollurnar eru með grátt nef en blikarnir gulleitt. Bæði kynin eru með gráa fætur. Æðarfuglarnir eru félagslyndir bæði á og utan varptímans. Oft má sjá stóra hópa á sundi. Blikinn gefur frá sér blíðlegt ú-ú-hljóð en kollan er dimmraddaðri. Æðarfuglar hafa litla vængi miðað við þyngd sína en fljúga þó beint og hratt.


Spila myndband

Æður Æðarfuglar verpa víða við Norður-Íshafið og norðanverða Evrópu og Ameríku. Hér eru þeir mjög algengir og verpa umhverfis allt landið.

Æðarfuglar kafa eftir fæðu sinni, sem er samsett úr fjölmörgum tegundum sjávardýra svo sem skeldýrum, sniglum, marflóm, krossfiskum og hrognum.

Fjöldi eggja: 4-6
Eggjaskurn: ljós
Stærð eggja: 7,5 cm löng og 5 cm í þvermál

Æðarfuglinn verpir á lágum bökkum og í hólmum við eða í nágrenni sjávar. Eins og hjá öðrum öndum liggur kollan ein á eggjunum. Hreiðrin eru oftast grunn skál úr sinu, sem fóðruð er að innan með dúnfjöðrum móðurinnar.

Af villtum íslenskum fuglum er æðarfuglinn sá sem gefur af sér mestan arð. Úr hverju hreiðri má taka um 17g af dúni án þess að það hafi áhrif á fuglinn. Margir landeigendur leggja á sig mikið erfiði til að vernda og bæta æðarvörp sín. Æðardúnstekja er nú nær hvergi stunduð í heiminum utan Íslands. Hverjir eru aðalóvinir æðarfuglsins?

Æðarfuglar voru fyrstu íslensku fuglarnir sem voru friðaðir. Það var árið 1787.

Æðarræktarfélag Íslands var stofnað árið 1969.

Nú eru nýtt stór eða smá æðarvörp á um 400 jörðum á Íslandi.

Í æðarhópum hér við land má stundum sjá frændur þeirra sem búa enn norðar. Þetta eru mjög skrautlegir fuglar, æðarkóngar og -drottningar, sem geta parast með æðarfugum og átt með þeim unga.

Sumstaðar trúa menn því að það viti á vont veður ef æðarfuglarnir snyrta sig mikið.

Ekki er óalgengt að árlega fáist um 3000 kg af æðardúni á landinu öllu. Hvað þarf að ná dún úr mörgum hreiðrum til þess?