| | | | |  |
Jamaíka er eyríki í Karíbahafi og þriðja stærsta eyjan þar, á eftir Kúbu sem er norðan hennar og Espanolu (Hispanolu), þar sem Haítí og Dóminíska Lýðveldið eru, austur af Jamaíka.
Fyrstu mennirnir til að byggja Jamaíka fyrir um 6000 - 7000 árum voru samfélög veiðimanna og safnara sem höfðust við í hellum. Árið 300 e.Kr. fluttu til eyjanna í Karíbahafi Saladoids Indíánar sem töluðu Arawak mál. Þriðja bylgja þjóðflutninga Indíána átti sér stað á þessu svæði á árunum eftir 450 þegar Taíno Indjánar, sem Spánverjar kölluðu Lucaya, fluttust til eyjanna í Karíbahafi frá meginlandi Suður-Ameríku.
Taíno Indjánar töluðu einnig Arawak mál, stunduðu fiskveiðar, landbúnað og veiðar. Þeir gerðu Saladoids Indíána að þrælastétt í samfélagi sínu og gleyptu í raun menningu þeirra en þóttu friðsamir að öðru leyti og áttu vinsamleg samskipti í fyrstu við Kristófer Kólumbus og menn hans þegar þeir komu á land í Jamaíka árið 1494.
Árið 1509 hófst hernám Spánverja á Jamaíka en Spánverjar kölluðu eyjuna Santiago. Um 200 þorp Taíno Indíána sem hvert hafði sinn höfðingja voru á þá á eyjunni og heildarfjöldi íbúa nokkur. Spánverjar, sem þó voru aldrei sérstaklega margir á Jamaíka, hnepptu heimamenn í þrældóm og fluttu þaðan sykur til Evrópu. Vegna erfiðisvinnu, örbirgðar, þjóðarmorða og umfram allt smitsjúkdóma sem bárust með Spánverjum stráféllu Taíno Indíánarnir og var nánast útrýmt á nokkrum áratugum. Brugðið var á það ráð að flytja þræla frá Vestur-Afríku til að vinna á sykurökrunum og við annan landbúnað.
Árið 1655 hernámu Bretar eyjuna við litla mótspyrnu Spánverja en þeim mun meiri mótspyrnu vestur-afrísku þrælanna. Þeir voru frelsinu fegnir við brotthvarf Spánverja en voru lítt hrifnir af hugmyndum Breta um frekara þrælahald. Margir þeirra flúðu upp í fjöllin og stunduðu skæruhernað gegn Bretum. Samfélög slíkra fyrrum þræla finnast enn á afskekktum stöðum inn með landinu.
Um aldamótin 1800 höfðu Bretar flutt slíkt magn þræla frá Afríku til Jamaíka, sem er tíu sinnum minni en Ísland að flatarmáli, að þar voru ekki færri en þrjár milljónir innfluttra þræla og afkomenda þeirra við erfiðisvinnu á sykurökrunum. Eyjan var og helsti þrælamarkaður allrar Ameríku allt frá 1672. Íbúar eyjunnar í dag eru að langstærstum hluta afkomendur þessara þræla og enska er tungumál þeirra frá tímum breskra yfirráða. Eftir afnám þrælahalds árið 1838 fluttist einnig nokkur fjöldi verkamanna frá Kína og Indlandi til eyjunnar til að vinna fyrir breska landeigendur. Jamaíka á því lítið menningarlega skylt við flest ríki Rómönsku Ameríku.
Veðurfar á Jamaíka hentar einkar vel til hvers kyns ræktunar og á 19. öld hófst mikil bananarækt á eyjunni sem enn er í blóma. Síðastliðna áratugi hefur ferðamennska svo orðið ein helsta grein atvinnulífsins þar, skapað atvinnu og aflað gjaldeyris.
Þegar leið á 20. öldina fór að bera á auknum kröfum um sjálfstæði þjóðarinnar frá Bretum sem hún fékk smám saman. Árið 1958 stofnuðu flest ríki undir stjórn Breta í Karíbahafinu með sér bandalag, Vestur-Indíabandalagið, en stjórnvöld í Jamaíka sögðu sig frá því árið 1960 eftir að hafa fengið heimastjórn árið áður. Fullt sjálfstæði fékkst svo árið 1962. Fyrst eftir sjálfstæði var hagvöxtur ör og vel virtist ganga í efnahagsmálum. Misskipting var og er hins vegar mikil frá fornu fari og erlend stórfyrirtæki högnuðust gríðarlega meðan alþýðan, sérstaklega á dreifbýlari svæðum, bjó við afar kröpp kjör.
Þjóðarflokkur alþýðunnar tók við stjórnartaumunum og tók upp stefnu ríkisreksturs í stórum greinum atvinnulífsins. Það gekk þó illa og snúið var frá þeirri stefnu. Bágar félagslegar aðstæður stórs hluta íbúa landsins og mikil fátækt eru stórt áhyggjuefni stjórnvalda allt til þessa dags. Landið er nú meðalþróað, læsi almennt en stjórn efnahagmála óstöðug. |
|
|