| | | | |  |
Solomonseyjar er samansafn nærri 1.000 eyja í Suður-Kyrrahafi sem saman mynda fullvalda og sjálfstætt ríki. Eyjarnar eru staðsettar austur af Papúa Nýju-Gíneu.
Solomonseyjar hafa verið byggðar mönnum í um það bil 30.000 ár. Fyrstu íbúarnir voru Papúar frá Nýju-Gíneu. Fyrir um það bil 6.000 árum hófust miklir búferlaflutningar á þessu svæði og þjóðflokkar frá eyjum og meginlandi Suðaustur-Asíu fluttust í stórum stíl austur á eyjarnar á Kyrrahafi. Með þessum nýju íbúum fylgdi ný og betri siglingatækni sem og aðferðir og tækni við landbúnað sem Papúarnir bjuggu ekki yfir. Siglingar og viðskipti milli eyjanna voru tíðar en einnig styrjaldir milli ættbálka. Mannát var stundað á eyjunum þegar fyrstu Evrópubúarnir komu þangað á 16. öld.
Spánverjinn Álvaro de Mendaña de Neira kom til eyjanna árið 1568 siglandi yfir Kyrrahafið frá Perú. Fyrir einhverjar sakir komst sá kvittur á kreik að de Neira hefði ekki aðeins fundið gull á eyjunum heldur væri þar að finna upprunastað þess gulls sem Solomon, konungur í Ísrael og sonur Davíðs, hefði átt í hofi sínu í Jerúsalem 2.500 árum áður. Nafnið Solomonseyjar eru komnar til vegna þessa orðróms. Spánverjar áttu hins vegar í erfiðleikum með að finna eyjarnar aftur og gerðu þær því ekki að nýlendu sinni.
Á 17. og 18. öld var nærvera Frakka, Hollendinga, Þjóðverja en fyrst og fremst Breta orðin mikil við eyjarnar og siglingar til þeirra jukust, sérstaklega eftir að Bretar höfðu komið sér fyrir í Ástralíu. Móttökur eyjaskeggja voru hins vegar ekki alltaf blíðar þegar evrópskir landkönnuðir stigu á land. Seint á 19. öld höfðu Bretar og Þjóðverjar svo sett á fót nýlendustjórn á mörgum eyjanna og talsverður fjöldi heimamanna fluttist frá heimkynnum sínum til að vinna á plantekrum í Ástralíu og á Fídji. Um aldamótin 1900 voru flestar eyjarnar undir stjórn Breta. Breskir kaupmenn og landeigendur nutu helst góðs af stjórn Breta og heimamönnum var refsað harkalega ef brotið var gegn lögum og reglum nýlenduherranna.
Í seinni heimsstyrjöldinni (1939-1945) urðu harðir bardagar á Solomonseyjum þar sem bandamenn, undir forystu Bandaríkjamanna, börðust við Japani, en japanska keisaraveldið hafði ráðist á eyjarnar árið 1942. Heimamenn á Solomonseyjum studdu Bandaríkin í stríðinu við Japani. Alls var barist á eyjunum í 15 mánuði og þar fór fram ein mikilvægasta orrusta Kyrrahafsstríðsins.
Eftir heimsstyrjöldina liðaðist breska heimsveldið endanlega í sundur og nýlendur Breta um heim allan fengu sjálfstæði. Sjálfstæðishugmyndir heimamanna á Solomonseyjum voru auk þess orðnar talsvert háværar eftir stríð. Bretar færðu heimamönnum smám saman aukin völd og 1978 var hið sjálfstæði ríki Solomonseyjar til. Pólitískur óstöðugleiki hefur oft einkennt Solomonseyjar síðan og árið 1999 braust út borgarastyrjöld og ástralskir og ný-sjálenskir hermenn voru meðal annars sendir til eyjanna til að stilla til friðar. Ástandið í landinu er enn nokkuð óstöðugt og það veldur vandræðum í efnahagsmálum. Með hjálp nágranna í Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Japan er vonast til að hægt verði að koma á meiri stöðugleika í landinu.
Árin 2007 og 2013 riðu stórir jarðskálftar yfir eyjarnar og ollu talsverðu tjóni. |
|
|