KÍSILÞÖRUNGUR
Kísilþörungar hafa um sig tvær skeljar úr kísli sem lokast saman eins og lok og botn á öskju þar sem lokið er örlítið stærra og nær út yfir botninn. Þegar kísilþörungur skiptir sér myndast tveir nýir einstaklingar. Þeir fá hvor sína skelina frá móðurinni, annar fær botninn og hinn lokið af öskjunni. Báðir mynda þeir nýjan botn og nota skelina sem þeir fengu frá móðurinni sem lok. Þetta leiðir til þess að annar afkomandinn verður örlítið minni. Við endurteknar skiptingar heldur þetta áfram og það verða til sífellt minni einstaklingar þar til lágmarksstærð er náð. Þá æxlast kísilþörungarnir og mynda kynfrumur sem renna saman. Afkomendurnir mynda síðan um sig tvær nýjar skeljar í fullri stærð. Kísilþörungarnir geta ekki hreyft sig af sjálfsdáðum. Það er því hætta á að þeir sökkvi til botns. Á móti því vegur að oft standa langir kísilangar út frá skeljum kísilþörunganna. Einnig hanga þeir iðulega margir saman í keðjum sem tengjast með slímþráðum eða kísilöngum. Þetta veldur því að þeir sökkva hægar en ella. Iðuhreyfingar sjávarins við yfirborðið hjálpa einnig við að halda þeim uppi í birtunni. Á vorin, meðan enn er nóg af næringarefnum í yfirborðslögunum, eru kísilþörungar ríkjandi. Þeir hverfa yfirleitt í byrjun sumars en spretta aftur upp í lok sumars og á haustin. Þegar líður á haustið minnkar birtan í sjónum og þörungarnir leggjast í dvala fram á næsta vor.