MARÍUSVUNTA
Ulva lactuca
Maríusvunta er blaðlaga grænþörungur sem er 5 til 15 cm á lengd og 3 til 10 cm á breidd. Maríusvunta getur þó orðið miklu stærri eða allt að 60 cm í þvermál, helst verður hún svo stór á mjög lygnum stöðum. Hún festist við klappir og grjót með lítilli skífulaga festu og upp af henni er mjög stuttur stilkur. Eitt heilt blað situr á stilknum. Það er bylgjótt og heilrennt, fagurgrænt á litinn og glansar þegar ljósið fellur á það. Þegar blaðið eldist slitnar það, étin eru á það göt og blaðið verður óreglulegt í lögun.
Maríusvunta er lík nokkrum öðrum tegundum af grænum himnum sem vaxa í fjörunni, m.a. grænhimnu og marglýju. Þær eru báðar talsvert þynnri en maríusvunta og við smásjárskoðun á þversneið af blaðinu sést að maríusvunta er gerð úr tveimur frumulögum en hinar einungis úr einu.
Maríusvunta vex um öll heimsins höf. Í Norður-Atlantshafi liggja norðurmörk útbreiðslu hennar um Ísland. Hún er algeng við Suðvestur- og Vesturland en sjaldgæf við Norðurland og Austurland. Hún vex bæði í brimasömum fjörum og þar sem er skjólsælt, þó er meira af henni í skjóli frá öldugangi. Hún vex frá miðri fjöru niður á um 5 m dýpi.