ÞANGLÚS

Isopoda

Þanglýs, sem einnig kallast jafnfætlur, eru krabbadýr, skyldar marflóm, kröbbum og rækjum. Þær eru aflangar og flatvaxnar. Líkami þeirra skiptist í höfuð, búk og hala. Á höfðinu eru tvö pör af fálmurum og er annað þeirra oftast mun lengra en hitt. Búkurinn er liðskiptur með sjö liðum og undir honum eru sjö pör af fótum sem allir eru eins (þaðan er nafnið jafnfætlur komið). Halinn er í grunninn gerður úr sex liðum en oft rennur skjöldurinn á þeim meira og minna saman þannig að erfitt er að greina liðina í sundur. Undir halanum eru fæturnir með blöðkum sem þanglýsnar nota til sunds. Flestar þeirra eru silalegar til gangs.

Hér við land eru margar tegundir af þanglúsum sem lifa bæði í fjörunni og neðan fjörunnar niður á mörg hundruð metra dýpi. Sumar tegundir lifa í ferskvatni eða á landi eins og grápöddur sem margir kannast við úr húsum hér á landi. Flestar tegundir lifa hins vegar í sjó. Nokkrar jafnfætlur eru sérhæfð sníkjudýr og er lögun sumra þannig að erfitt er að ímynda sér að um krabbadýr sé að ræða.

Í fjörum eru þanglýs algengar. Við Suðurlandið og í Vestmannaeyjum lifir sölvahrúturinn sem er stærsta þanglúsin. Hann getur orðið rúmlega þriggja cm langur. Sölvahrút rekst maður á allra efst í fjörunni, oft innan um sjávarfitjung og aðrar strandplöntur. Undir steinum efst í fjörunni er að finna svokallaðar fjörulýs sem eru smáar, aðeins um þrír til fimm mm á lengd. Neðar í fjörunni innan um þangið lifa hinar eiginlegu þanglýs. Það eru nokkrar tegundir, oftast 1 til 2,5 cm á lengd sem lifa á þörungum bæði stórum og smáum.

Neðan fjörunnar lifa margar tegundir þanglúsa sem geta verið margbreytilegar að gerð. Ein tegund, bryggjulús, er algeng hér við land. Hún grefur sér göng inn í timbur sem er í sjó, til dæmis bryggjustaura eða skipsflök. Af greftri bryggjulúsarinnar hafa margir bryggjustaurar eyðilagst og stórtjón hlotist af.


Flestar tegundir þanglúsa lifa á þörungum eða lífrænum leifum á botninum. Sumar tegundir eru þó rándýr og önnur snýkjudýr á stærri krabbadýrum.

Karldýrið heldur kvendýri í stuttan tíma fyrir skelskipti en þá fer mökun fram og eftir það sleppir hann kvendýrinu. Kvendýrin geta einungis makast þegar þau skipta um skel og þetta atferli tryggir betur að kynin séu saman þegar það gerist. Eggin festir kvendýrið undir halann og heldur þeim þar á meðan þau klekjast út og áfram þar til lirfurnar hafa þroskast í litlar þanglýs sem líta út eins og foreldrarnir en eru auðvitað miklu minni. Algengt er að líftími þanglúsa sé eitt til þrjú ár.