Vegna breytinga á hormónastarfsemi líkamans á kynþroskaaldrinum eykst starfsemi svita- og fitukirtla. Krakkar fara að svitna meira og oft kemur sterk svitalykt. Hárið og húðin fitnar. Nú þarf að gæta betur að þrifnaði og fara í bað eða sturtu a.m.k. annan hvern dag og að sjálfsögðu alltaf eftir líkamlega áreynslu, s.s. íþróttaæfingar. Andlit þarf að þvo daglega. Sumir kjósa að nota svitalyktareyði. Þeir sem nota andlisfarða þurfa að gæta þess að þrífa farðann af á kvöldin með volgu vatni, mildri sápu eða sérstöku hreinsikremi.
Á kynfæri ætti aðeins að nota milda eða enga sápu við þvott. Stelpur þurfa að þvo milli skapabarma og gæta þess að bera ekki bakteríur frá endaþarmi að leggangaopi.
Strákar þurfa að þvo vel undir forhúð og til þess þurfa þeir að bretta hana upp fyrir kónginn. Undir forhúðinni geta safnast óhreinindi og bakteríur.