Kynþroski
Hárvöxtur og háreyðing

Á kynþroskaaldri fara hár að vaxa hér og þar á líkamanum, undir höndum, á fótleggjum, við kynfæri og hjá strákum á bringu og í andliti. Hárvöxtur er mjög einstaklingsbundinn og byrjar misjafnlega snemma.

Ekki eru allir sáttir við þennan hárvöxt og vilja fjarlægja hárin. Mjög algengt er að fólk fjarlægi hár undan höndum því í þau sest sviti. Einnig fjarlægja margar konur hár af fótleggjum og karlar raka skegg. Undanfarin ár hefur það orðið algengara að fólk fjarlægi hár víðar af líkamanum, s.s. við kynfæri. Ástæðan er óljós, sumir telja að þetta tengist aukinni klámvæðingu en í klámbransanum er slíkt algengt.

Hægt er að losna við hár með ýmsum hætti.

Rakstur

Ef hár, önnur en skegg, eru fjarlægð með rakvél verða þau sýnileg aftur eftir 2–3 daga. Með stöðugum rakstri gætu hárin orðið grófari og með sterkari rót. Gæta þarf hreinlætis, nota einungis eigin rakvél og passa að þrífa vélina. Annars er hætt við sýkingum.

Háreyðingarkrem

Ýmis krem eru til sem eyða hárum. Sum eru sterk og varasöm. Mikilvægt er að lesa vel leiðbeiningarnar. Yfirleitt koma hárin aftur eftir nokkra daga.

Vax

Til er vax sem borið er á húðina. Hárin festast í vaxinu og rifna upp með rótum þegar vaxið er tekið af. Mikilvægt er að fara eftir leiðbeiningum. Einnig er hægt að fara á snyrtistofu og láta fjarlægja hárin með vaxi. Hárin byrja að koma aftur 2–3 vikum eftir vaxmeðferð. Með endurtekinni vaxmeðferð minnkar hárvöxturinn.