Kynþroski
Tilfinningar

Það sem kemur kynþroskanum af stað eru hormón sem heilinn myndar. Hormónin berast um líkamann og valda ekki einungis líkamlegum breytingum heldur hafa einnig mikil áhrif á tilfinningar. Sumir finna fyrir mikilum skapsveiflum þar sem stutt er á milli gleði og leiða. Þú ert sem sagt ekki bara að breytast úr barni í fullorðinn einstakling líkamlega heldur einnig andlega. Og það getur tekið á. Spurningar eins og hver er ég?, hver verð ég? eru ekki óalgengar. Sumir eru ráðvilltir og ekki alls kostar sáttir við sjálfa sig.

Allt eru þetta ósköp eðlilegar vangaveltur. Áreiti frá umhverfinu, s.s. auglýsingar í fjölmiðlum og tískustraumar, senda okkur stöðug skilaboð um hvernig við eigum að vera og hvað okkur vanti til að vera hamingjusöm. Það sem mestu máli skiptir er að vera sáttur við
sjálfa(n) sig eins og maður er. Við erum öll einstök og frábær, hvert á sinn hátt.

Ýmsar aðrar tilfinningar vakna á kynþroskaaldrinum. Kynhvötin verður sterkari og við löðumst að öðrum - verðum hrifin af einhverjum. Áhugi fyrir kynlífi og nánum samskiptum við aðra vaknar en mjög misjafnt er hve sterk þessi löngun er og hvenær hún gerir vart við sig. Við erum ólík sem betur fer.