Kynlíf
Ást og kynlíf
Eitt af því sem gerist á kynþroskaaldri er að kynhvötin vaknar. Flestir finna þá einhvers konar löngun til þess að eiga náið samband við aðra manneskju og ýmsar kynferðislegar kenndir gera vart við sig. Áhugi á kynlífi vaknar.

Ást

Ástin er einstök tilfinning hjá hverjum og einum og tengist því oft að laðast að öðrum einstaklingi. Þeir sem eru ástfangnir bera sterkar tilfinningar hvor til annars og sækjast eftir því að vera saman öllum stundum. Þeir leita eftir hlýju og líkamlegri snertingu og gagnkvæmt traust og virðing skapast milli þeirra.

Kynlíf

Orðið kynlíf hefur mismunandi merkingu í hugum okkar. Sumir setja jafnaðarmerki milli kynlífs og samfara meðan aðrir segja að í hugtakinu felist miklu meira eða allt líf manneskjunnar sem kynveru. Flestir tengja samt hugtakið kynlíf við einhvers konar snertingu og örvun á kynferðislega næmum stöðum líkamans, við kossa, kelerí, gælur, fróun eða samfarir. Kynlíf er hægt að stunda með sjálfum sér. Það er kallað sjálfsfróun og hana stunda langflestir. Mikilvægt er að stunda kynlíf með öðrum aðeins ef maður þekkir og treystir hinum og vill það sjálfur.