Allir eiga rétt
Kennsluefni um réttindi, skyldur, samstöðu og umburðarlyndi
Tilgangurinn með gerð þessa kennsluefnis er að fræða unglinga í grunnskóla um réttindi sín og skyldur, ásamt því að hvetja þá áfram í að verða virkir þátttakendur í samfélaginu. UNICEF hefur gefið út allmörg kennsluhefti til að mæta eftirspurn kennara og annarra leiðbeinenda um kennsluefni sem fjallar um réttindi og skyldur ungs fólks. Kennsluefni þetta er samið í þeim tilgangi að hvetja börn og unglinga til að þróa með sér umburðarlyndi, samstöðu með öðrum íbúum heimsins, friðarvilja, skilning á félagslegu réttlæti og meðvitund um umhverfið og verndun þess. Íslenska ríkið er aðili að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur þannig skuldbundið sig til þess að standa fyrir verndun réttinda barna og fræðslu barna um þau réttindi.
Tengsl milli þjóða heims verða sífellt nánari í því hnattvædda samfélagi sem við búum í. Því er mikilvægt að einblína ekki á sitt eigið samfélag, heldur leiðbeina börnum um réttindi þeirra og skyldur í alþjóðasamfélaginu. Ef jákvæður skilningur er vaxandi á alþjóðamálefnum eru meiri líkur á að framtíðarþróun verði jákvæð. Einnig ætti að hvetja nemendur til þess að líta út fyrir sitt eigið samfélag og gera sér grein fyrir því sem er að gerast í veröldinni.
Þekking er mikið hvatningarafl fyrir ungt fólk, afl sem mun styrkja það í framtíðinni. Það er þó ekki nóg að sjá nemendum aðeins fyrir upplýsingum um fordóma og mismunun. Nemendur ættu einnig að læra hvernig þeir geta tekið þátt í jákvæðum aðgerðum til þess að berjast gegn fordómum og sýna þannig og hvetja til umburðarlyndis. Atriði sem þessi eru leiðarljós í verkefnum og æfingum þessa kennsluefnis.
Það er ekki auðvelt að fá ungt fólk til að deila hugsunum sínum og tilfinningum eða vera opin fyrir breytingu á hegðun sinni. Þau sem ná að yfirvinna sína eigin fordóma munu vera í stakk búin til þess að koma með verðugt framlag til samfélagsins.
Kennsluefninu er skipt í sjö kafla, hver með allt að 3-8 verkefnum, en hver kafli fjallar um málefni sem lögð eru til grundvallar í réttindanámi barna, hvort sem er í vestrænum löndum eða þróunarríkjum. Kaflarnir samanstanda af verkefnum, hlutverkaleikjum og sögum sem hvetja ungt fólk til að setja sig í spor þeirra sem lifa öðruvísi lífi en það sjálft.