Hvers vegna er mikilvægt að fræða almenning um réttlætiskennd og sanngirni? Óháð stöðu og stétt hefur maðurinn rétt á að fá ákveðnum grunnþörfum fullnægt. Má þar nefna næringarríka fæðu, húsaskjól, menntun, heilbrigðisþjónustu, umhyggju og frelsi til að tjá sig.

Víða er pottur brotinn í þessum efnum. Í iðnaðar- og þróunarríkjum búa einstaklingar sem skortir þessi grundvallarréttindi til mannsæmandi lífs. Fátækt er eitt það algengasta og alvarlegasta óréttlæti sem fólk þessa heims mætir og kemur í veg fyrir að einstaklingar fái grunnþarfir sínar til að lifa mannsæmandi lífi uppfylltar. Fátækt kemur einnig í veg fyrir að einstaklingar nái fullri getu til að þroskast eðlilega og nýta hæfileika sína. Það gildir einu hvort um er að ræða kynbundið, stéttar- eða trúarlegt óréttlæti eða mismunun vegna þjóðernis.

Nauðsynlegt er að stuðla að auknu réttlæti, ekki einungis fyrir einstaklinginn heldur fyrir alla samfélagsþegna.

Í þeim ríkjum sem réttlæti er ekki virt eru auknar líkur á að til átaka komi. Óréttlæti, af hvaða toga sem er, er ein algengasta orsök ágreinings og ofbeldis á milli einstaklinga, hópa og þjóða. Það er heldur ekki fjarri að ofbeldi leiði til enn frekara óréttlætis.

Aukinn samhljómur ríkir í alþjóðasamfélaginu um að upplýsa almenning um réttindi sín og skyldur. Árið 1989 var haldin ráðstefna um réttindi barna þar sem lögð var fram ályktun um að leggja ætti aukna áherslu á að fræða almenning um mannréttindi og grundvallarfrelsi einstaklingsins. Í kjölfar ráðstefnunnar var gefin út alþjóðayfirlýsing um menntun fyrir alla (e. World Declaration on Education for All) þar sem fram kom að eitt aðalhlutverk menntunar væri að upplýsa einstaklinginn um félagslegt réttlæti og styrkja þannig stöðu hans í samfélaginu.

Hver einstaklingur verður að vera upplýstur um sín félagslegu réttindi og um mikilvægi réttindanna. Það er ekki nóg að hann þekki eingöngu hinn lagalega ramma sem réttindin ná til heldur þarf hann að þekkja hvernig þau birtast í daglegu lífi, inni á heimilunum, í skólanum og í samfélaginu. Hann þarf að geta fundið til samúðar, sektarkenndar og jafnvel reiði. Með því verður einstaklingurinn meðvitaðri um réttlæti og jafnræði á öllum sviðum mannlífsins, hvort sem það er í einkalífi, starfi eða á alþjóðavettvangi.

;
Kafli 5
Réttlætiskennd og sanngirni
PrentaPRENTA