Ef nemendur eru beðnir að útskýra hvaða merkingu þeir leggja í orðin ágreining og átök eru svörin nær undantekningarlaust þau sömu, óháð aldri eða þjóðerni. Átök og ágreiningur virðast einna helst vera tengd við hugtök eins og vopnuð átök, sprengjur, dráp, byssur, stríð, óvini, slagsmál, morð, öskur, reiði og hatur.

Fjölmiðlar í flestum ríkjum heims leggja áherslu á að færa fréttir af ofbeldisfullum ódæðisverkum. Ofbeldi er jafnvel algengt í fjölmiðlum sem hafa það að markmiði að skemmta fólki. Það kemur því ekki á óvart að margir leggja sömu merkingu í orðin ágreining og ofbeldi. Mikilvægt er að upplýsa börn, unglinga og aðra um að ekki enda allar tegundir ágreinings með ofbeldi. Ofbeldi er ekki hluti af hinu mannlega eðli heldur er ofbeldi lært viðbragð við ágreiningi. Ef hægt er að tileinka sér ofbeldisfulla hegðun þegar leita á lausna við ágreiningi þá er einnig mögulegt að temja sér aðra hegðun.

Menntun getur aukið víðsýni nemenda og þar með hjálpað þeim að skilja hvað felst í ágreiningi. Það er ekki nóg að greina einungis aðstæður ágreinings heldur þarf líka að skoða árekstra sem verða á milli fólks vegna hugmynda þeirra, gildismats, stöðu og ólíkra sjónarhorna. Ágreiningsmál af þessu tagi eru einna líklegust til að enda í ofbeldisfullum átökum ef ekki er leitað lausna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Ólíklegt er að fræðsla geti afmáð alla árekstra, þar sem átök eru óhjákvæmilega hluti af lífinu. Menntakerfið getur þó bent á leiðir til að leysa úr ágreiningi og minnt nemendur á að þeir hafa val þegar bregðast þarf við árekstrum. Nemendur geta þróað með sér færni til samningagerða og vandamálalausna og mikilvægt er að litið sé á ágreining sem tækifæri til breytinga. Í fyrstu geta nemendur lært að leysa ágreiningsmál sem upp koma í daglegu lífi eins og við vini, fjölskyldu og jafnvel kennara! Nemendurnir geta síðan notað sömu aðferð þegar leysa á vandamál eða ágreining sem tengjast ólíkum trúarlegum og pólitískum skoðunum, þjóðinni eða umheiminum.

Menntun um ágreining og lausnir hefur fyrirbyggjandi áhrif. Með því að öðlast þekkingu, færni og viðhorf til friðar hafa nemendur tækifæri til að láta til sín taka í að bæta líf sitt og annarra.

Nokkur meginhugtök

NEIKVÆÐUR FRIÐUR

Hér er átt við ástand þar sem ekki ríkir stríð og ofbeldisfull átök eru í lágmarki.

JÁKVÆÐUR FRIÐUR

Hér er skilgreint ástand þar sem ekki ríkir stríð. Með jákvæðum friði er einnig átt við almenna fækkun á þeim þáttum sem hafa slæm áhrif á lífsgæði. Jákvæður friður er ekki mögulegur án sanngjarns dómkerfis og efnahagslífs, jafnvægis í vistkerfinu auk útrýmingar á fátækt og mismunun.

DULIN BROT Á RÉTTINDUM

Hér er ekki átt við augljóst líkamlegt ofbeldi heldur hið lævísa ofbeldi fátæktar, kynþáttahaturs, kynjamisréttis og mannréttindabrota. Dulin brot á réttindum eiga sér stað þegar samfélagið bregst þeirri skyldu sinni að vernda fólk gegn mismunun og mannréttindabrotum.

;
Kafli 6
Ágreiningur og lausnir
PrentaPRENTA