Áður fyrr var nemendum kennt að sjá heiminn sem samansafn fjölda þjóðríkja. Litið var svo á að ríki þessi tengdust aðeins í þau fáu skipti sem hagsmunir þeirra rákust á eða tengdust á einhvern hátt. Í dag er þó mikilvægt fyrir ungt fólk að þekkja og skilja hvernig þjóðir eru háðar hvor annarri, að allar þjóðir heims eru samtvinnaðar inn í ákveðið viðskipta- og samskiptanet.

Til þess að skilja tengsl milli þjóða er mikilvægt að sjá heiminn sem heildstætt kerfi, þar sem þjóðir heimsins eru háðar hver annarri og hafa áhrif hver á aðra. Það má skoða þetta ferli sem hringrás þar sem breytingar í einu landi hafa áhrif á ákveðin skilyrði í öðru landi. Hver breyting innan kerfisins hefur áhrif á heildina.

Sem dæmi um innbyrðis tengsl þjóðríkja má nefna umhverfismengun. Slík mengun dreifist um svæði óháð landamærum, hefur áhrif á fæðukeðjur í þeim löndum sem hún snertir og hefur þar með neikvæð áhrif á heilsu og lífslíkur fólksins sem þar búa. Einnig má nefna staðbundin átök í landi þar sem olía er framleidd. Slík átök geta haft áhrif bæði á olíuverð víðsvegar um heiminn og stefnu þjóða í orkumálum. Hver þjóð tilheyrir einu heimskerfi, stundum eru áhrif þessa kerfis augljós en stundum eru þau falin.

Ekki er einungis um að ræða innbyrðis tengsl milli svæða og landa. Ýmis mikilvæg heimsmálefni eru einnig samtengd. Fátækt tengist til að mynda ótal mismunandi atriðum eins og skorti á menntun, slæmri heilbrigðisþjónustu, slæmum umhverfisaðstæðum og mismunun. Tilraunir til að útrýma fátækt með því að veita einungis menntun og útvega starfsþjálfun getur í besta falli gefið af sér hluta af mögulegum árangri. Langtímalausnum er náð með því að skilja innbyrðis tengsl allra þeirra þátta sem koma að málefninu.

Sú staðreynd að þjóðir séu háðar hver annarri er ekki nýtt fyrirbæri. Mannfólkið hefur komist í snertingu hvert við annað með landkönnunum, nýlendustefnum, fólksflutningi og verslun öldum saman og þannig hafa myndast sambönd á milli einstaklinga. Víxlverkun á hugmyndum og gildum hefur átt sér stað um aldir og menningarlegir þættir hafa verið fengnir að láni. Framleiðsla og tækninýjungar hafa frá örófi alda verið innfluttar frá öðrum menningarheimum.

Innbyrðis tengsl eiga þó ekki einungis við um alþjóðasamfélagið. Yngri nemendur geta til að mynda skoðað þau tengsl sem eiga sér stað innan fjölskyldu þeirra, í skólanum, milli vina og í samfélaginu. Þannig geta nemendur séð að enginn er eyland, hvorki menn né málefni.

;
Kafli 1
Tengsl okkar við umheiminn
PrentaPRENTA