Í skoðanakönnun þar sem 15.000 ungmenni svöruðu sagði einn þriðji að börn af ólíkum þjóðarbrotum hefðu upplifað fordóma í samfélaginu. Gyðingar og sígaunar eru dæmi um þjóðernishópa sem hafa þjáðst í aldanna rás. Þetta eru þjóðir hinna landlausu sem eiga hvergi höfði sínu að halla nema innan um aðrar þjóðir. Gyðingar og sígaunar mæta jafnvel enn fordómum í því landi sem þeir eru aldir upp í, óháð því hversu margar kynslóðir af fjölskyldum þeirra hafa búið í landinu.

Nær 50 milljónir af íbúum heimsins hafa verið flæmdar burt frá sínum heimaslóðum og neyðst til að leita hælis í öðru landi. Vopnuð átök í heimalandinu eru ein helsta orsök þess að fólk flýr land sitt. Á meðan fjölgun er meðal þeirra sem leita hælis vegna efnahagslegra eða pólitískra vandamála virðist á sama tíma sem fordómar hafi færst í aukana vegna fjölgunar innflytjenda. Nauðsynlegt er að takast skjótt á við þetta nýja vandamál.

Alls 144 ríki eru aðilar að alþjóðasamningi sem staðfestir rétt allra borgara til trúarlegs frelsis. Þó eru enn mörg ríki sem viðurkenna ekki rétt þegna sinna til trúfrelsis og jafnvel meina þeim að iðka þá trú sem þeir hafa valið sér. Við getum ekki og megum ekki standa aðgerðalaus á meðan brotið er á grundvallarréttindum einstaklingsins. Réttindi sem þykja sjálfsögð hjá mörgum eru fjarri því að vera tekin gild alls staðar. Þar sem óumburðarlyndi ríkir verður ójöfnuðurinn meiri og ójöfnuður getur auðveldlega leitt til ofsókna.

Trúar- og þjóðernislegt umburðarleysi brýtur í bága við sjálfsögð mannréttindi og ógnar lýðræði og heimsfriði. Slík sjónarmið hafa leitt til ýmissa hörmunga, má þar nefna útrýmingu Gyðinga og þjóðarmorðin í Bosníu og Rúanda svo örfá dæmi séu nefnd. Mörg borgarastríð og ótiltekinn hluta þess ófriðar sem á sér stað í heiminum nú á dögum má rekja til viðhorfs gagnvart mismunandi trúarhópum og þjóðarbrotum.

Upplýsingar frá 77 löndum leiddu í ljós að íbúar flestra ríkja hefðu trú á að menntun væri eitt helsta tækið til að koma í veg fyrir ójöfnuð og umburðarleysi. Ástæðan sem liggur hér að baki er sú að fordómar eru oftar en ekki byggðir á fáfræði. Eftirfarandi verkefni gefa ungu fólki tækifæri til að setja sig í spor fólks sem er ólíkt þeim sjálfum, má þar nefna hælisleitendur, aðra kynslóð innflytjenda og ungt fólk með aðrar trúarskoðanir. Ef ungu fólki gefst færi á að sjá heiminn með augum fólks sem alist hefur upp við önnur lífsskilyrði og aðra menningu, á það frekari möguleika á að tileinka sér nýjar venjur og öðlast víðsýni. Þetta er tækifæri sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

;
Kafli 3
Trú og uppruni
PrentaPRENTA