Kafli 1

Tengsl okkar við heiminn

Hvar sem við búum þá erum við öll tengd og háð öðru fólki, sem og öðrum löndum og heimshlutum. Mikilvægt er að ungt fólk, og aðrir í samfélaginu, geri sér grein fyrir þessum tengslum og hvernig skuli virða þau og nýta sér til fullnustu.

Kafli 2.

Stelpur og strákar

Stelpur eru meirihluti þeirra 100 milljóna barna á skólaaldri sem hljóta ekki menntun, þær fá lakari heilsuvernd og verða oftar fyrir misnotkun. Mismunun kvenna og stúlkna er ekki einungis vandamál í þróunarríkjum. Óvíst er hve mörg lönd borga sömu laun til karla og kvenna sem vinna sambærileg störf, eða hversu mörg lönd bjóða upp á jöfn tækifæri fyrir karla og konur. Einnig er heimilisofbeldi algengt hvar sem er í heiminum, en samt alls staðar falið. Þó að verkefni í þessum kafla snúist aðallega um þær áskoranir sem snúa að stúlkum, þá eru vandamál drengja einnig mjög raunveruleg. Í verkefnunum er hvatt til ítarlegrar skoðunar á staðalímyndum og almennri stöðu kvenna og karla með hjálp hlutverkaleikja, sagna og umræðna.

Kafli 3

Trú og uppruni

Rannsóknir hafa sýnt að flest ríki álíta að menntun sé besta leiðin til að sporna gegn fordómum, mismunun og umburðarleysi. Ástæðan fyrir þessu er að flest form fordóma eru byggð á vanþekkingu. Þessi kafli gefur nemendum færi á að kynnast og finna til samkenndar með fólki sem er mjög ólíkt þeim sjálfum, þar með taldir flóttamenn, innflytjendur og fólk sem hefur almennt ólíkar skoðanir.

Kafli 4

Ímyndir, staðalímyndir og skilningur

Ímyndir vísa til þess sem við sjáum og til þeirra hugmynda sem við myndum okkur um annað fólk og staði. Allt of oft eru skynjanir ungs fólks á þeim sem eru „öðruvísi“ byggðar á staðalímyndum og fordómum utan úr samfélaginu. Það að læra um ímyndir og skynjun þeirra fær ungt fólk til að læra að varast hleypidóma og hlutdrægni í samskiptum sínum við aðra.

Kafli 5

Réttlæti og sanngirni

Frekari skilningur á því hvað er félagslegt réttlæti, sanngirni og mannréttindi mun gera nemendum fært að vinna að auknu réttlæti í eigin landi, sem og annars staðar í heiminum.

Kafli 6

Ágreiningur og lausnir

Fyrir margt ungt fólk er ágreiningur samnefni ofbeldis. Ofbeldi er þó aðeins eitt af mörgum mismunandi svörum við ágreiningi. Unnt er að læra færni í friðsamlegum lausnum og nota hana á uppbyggjandi hátt við að jafna ágreining jafnt af persónulegum toga sem og innan smærri hópa, samfélagsins, þjóðar eða milli þjóða.

Kafli 7

Framtíðin; breytingar og tækifæri

Hér er ætlunin að nemendur læri að rannsaka þá þætti sem orsaka breytingar og geti þannig öðlast skilning á því hvernig hægt er að nýta sér þekkingu sína til að skapa vænlegri framtíð. Framtíðin er ekki rituð í stein og nemendurnir eru hvattir til að sýna sjálfstraust og ábyrgð í ákvarðanatökum.

Þetta kennsluefni mun þurfa nærgætna meðhöndlun kennara og annarra leiðbeinenda, og best væri ef þeir eða þær væru áhugasöm og þeim væri umhugað um þau málefni sem ber á góma í efninu.

;
Yfirlit yfir kafla
PrentaPRENTA