Talið er að áður en börn hafa náð tveggja ára aldri séu þau orðin meðvituð um mismuninn milli ólíkra kynþátta. Þegar þau eru orðin fjögurra til sex ára gömul eru þau síðan farin að hegða sér eins og þau halda að til sé ætlast af þeim, til dæmis eru þau farin að taka að sér stöðluð kynjahlutverk. Á þessum aldri átta börn sig á að ekki eru allir eins og eru jafnvel farin að mismuna þeim sem líta öðruvísi út en þau, tala öðruvísi eða eru fötluð.

Hvað leiðir til þess að börn verða svo snemma meðvituð um staðalímyndir? Oftast læra þau þessi viðhorf heima fyrir, á ómeðvitaðan hátt. Síðar fara börn að meðtaka ýmis skilaboð um staðalímyndir í gegnum bækur, blöð, tímarit og kvikmyndir. Jafnvel hefur það áhrif ef lítið er fjallað um ákveðna hópa í fjölmiðlum (ákveðna kynþætti, innflytjendur, eldra fólk eða fatlaða) gefur það börnum til kynna að samfélagið meti þessa hópa ekki til jafns við aðra.

Frá tíu ára aldri eru börn farnir að tileinka sér staðlaðar ímyndir um fólk í fjarlægum löndum. Sjónvarpsfréttir eru mikilvæg uppspretta þessara hugmynda. Sjónvarpsframleiðendur treysta á æsifréttir sem oft eru tengdar óförum og ógæfu til þess að ná og halda athygli áhorfandans. Slíkur fréttaflutningur skilur börn og fullorðna eftir með þá hugmynd að þróunarríkin séu full af vandamálum og að þeim fari lítið fram.

Auglýsingar hjálparstofnana senda oft út röng skilaboð þegar sótt er eftir fjármagni í verkefni sem annars eru verðug og jákvæð. Í auglýsingunum má oft finna staðalímyndir um fólk í þróunarlöndunum. Sýndar eru myndir af veikum börnum og gefið í skyn að lítil fjárhæð geti gert kraftaverk í lífi þessara hörmulegu fórnarlamba. Skilaboðin sem stofnanirnar senda frá sér með slíkum auglýsingum gefa til kynna að í þróunarlöndum séu aðeins sveltandi börn og að fólkið í þessum löndum sé ekki fært um að bjarga sér sjálft. Slík skilaboð láta að því liggja að rík vestræn lönd séu þau einu sem geti bjargað sveltandi börnum í þróunarríkjunum.

Staðalímyndir skaða alla íbúa alþjóðasamfélagsins. Einstaklingar sem tilheyra hóp sem fastmótaðar skoðanir hafa verið myndaðar um eiga á hættu að vera meinað um menntun, atvinnutækifæri og húsnæði og gætu orðið fórnarlömb háðs, áreitni og ofbeldis. Þeir sem tileinka sér þessar stöðluðu ímyndir af öðrum gætu einnig orðið fyrir neikvæðum áhrifum. Hætta er á að slík viðhorf leiði til þess að fólk myndi óraunveruleg viðhorf til sjálfs síns og geti þannig haft áhrif á hæfileikann til að vinna í samstarfi við aðra og að mynda eðlileg samskipti í fjölbreyttum heimi. Slík hlutdrægni í viðhorfi til annarra getur orðið til þess að ræna fólk tækifærinu til þess að kynnast öðrum menningarheimum.

Það að einblína á framandi þætti menningar, eins og ákveðnar hátíðir, fatnað og mat, á yfirborðskenndan hátt getur orðið til þess að styrkja staðalímyndirnar í stað þess að brjóta þær niður. Til þess að fjölmenningarleg menntun geti borið árangur verður að beina sjónum að þeirri staðreynd að menning aðlagast aðstæðum. Engin menning er einsleit og fjölbreytni á sér stað innan allra menningarheima. Til þess að viðhorfsbreyting geti orðið þurfa nemendur annað og meira en einungis upplýsingar um aðra menningu og menningarhópa. Mikilvægt er að skoða og skilgreina sína eigin fordóma og rannsaka rætur staðalímynda og fordóma í samfélaginu. Nemendur þurfa síðan að vinna að því að losa sig við staðlaðar hugmyndir um fólk og menningu, þróa með sér færni til að taka á fordómum í samfélaginu og leitast við að fylgja málstað jöfnuðar og réttlætis.

Nokkur lykilatriði:

FORDÓMAR

Fordómar eru neikvætt viðmót eða skoðun á manneskju eða hóp sem byggist ekki endilega á þekkingu á viðkomandi hóp eða manneskju.

STAÐALÍMYND

Staðalímynd er of einfölduð og einsleit skoðun um hóp af fólki. Staðalímyndir eru oft, en þó ekki alltaf, neikvæðar. Þær geta verið byggðar á fordómum en geta líka verið til komnar vegna samskipta við eina manneskju úr hóp og framkoma þeirrar manneskju er þá yfirfærð á allan hópinn.

KYNÞÁTTAFORDÓMAR

Kynþáttafordómar lýsa hegðun, aðgerðum eða stofnanalegum framkvæmdum sem eru byggðar á þeirri forsendu að ákveðnar manneskjur hafi rétt til þess að ráða yfir öðrum einungis vegna litarafts síns. Kynþáttafordómum hefur verið lýst sem sem „fordómum plús valdi.“

ÞRÓUNARLÖND

Rauði kross Íslands gaf út fræðsluritið Hvað eru þróunarlönd? árið 1996 en það er að finna á heimasíðu þeirra www.redcross.is. Þar kemur fram eftirfarandi skilgreining á þróunarlöndum: Þrír af hverjum fjórum íbúum jarðar búa í þeim löndum heims sem kallast þróunarlönd. Fátækt er þar meiri og lífskjör verri en í okkar heimshluta. Í mörgum þessara ríkja er matvælaframleiðsla ónóg og íbúana skortir hreint drykkjarvatn. Margir þeirra kunna hvorki að lesa né skrifa og víða hafa börn ekki tækifæri til að ganga í skóla.

;
Kafli 4
Sjálfsmynd og staðalímyndir
PrentaPRENTA