Geitin er spendýr, klaufdýr og jórturdýr eins og kýrin og kindin.
Geitur voru oft nefndar kýr fátæka fólksins, enda gátu þær lifað á afar rýru landi og þurftu kjarnminna hey.
Sumar geitur eru með horn, aðrar eru kollóttar og enn aðrar eru hníflóttar (lítil horn). Rófan er stutt og loðin. Hún nefnist dindill. Svæðið í kringum munn og nef nefnist snoppa.
Geitin er lík kindinni hvað varðar líkamsbyggingu og stærð. Hún er strýhærð. Neðan á kjálkanum er hártoppur, skegg.
Áður fyrr var geitamjólk nýtt hér á landi. Hún þykir afar holl og hentar vel þeim sem eru viðkvæmir í maga og einnig þeim sem þola illa kúamjólk. Geitum fer fækkandi, þær eru nú um fjögur hundruð á landinu en voru um þrjú þúsund í kringum árið 1930. Nú eru þær eingöngu hafðar til gamans.
Dæmi um geitanöfn eru Rák, Skálm (svartflekkótt), Fiða og Kappi.
Í gamla daga trúði fólk því að geitalifur fældi burt drauga, ófreskjur og næturvofur.
Fengitími
Nær hámarki í desember – janúar.
Meðgöngutími
Um 149 dagar eða um fimm mánuðir.
Fjöldi afkvæma
Einn til tveir kiðlingar.
Huðnan er með tvo spena. Geitamjólkin er ólík kindamjólkinni og e.t.v. ekki eins kjarnmikil.
Kiðin taka hægar út vöxt en lömbin sem tútna hratt út. Reynt hefur verið að venja lamb undir huðnu en það hefur ekki gefist vel.
Geitur komu til Íslands með fyrstu landnámsmönnunum ásamt nautgripum, hrossum og sauðfé.
Geitur eru fjörmiklar og vilja gjarnan vera í klettum og skóglendi. Þær eru ótrúlega fimar. Þær klifra, hoppa og skoppa.
Kið hoppa og skoppa út um allt frá huðnunni, móðurinni, ólíkt lömbum sem víkja vart frá ánum.
Takmörkuð nyt á Íslandi, en víða erlendis er búinn til geitarostur úr mjólkinni sem þykir afar mikið lostæti.
Geitaskóf: Fléttnategund.
Kiða sér: Smá hreyfa sig.
Kiðfættur: Með nágeng hné.
Margur fer í geitarhús ullar að biðja: Geitum vex hár en ekki ull.
Steingeit: Stjörnumerki.
Trauð gengur geit úr garði: Geitur eru gráðugar og láta ekki svo glatt reka sig úr garði.