Hesturinn er hófdýr, hann gengur á tánum og hefur hófa og gangþófa.
Hesturinn er meðalstór, sterkbyggður, lipur og snöggur í hreyfingum. Íslenski hesturinn er eini hesturinn í heiminum sem hefur fimm gangtegundir:
Tölt, brokk, skeið, fet og stökk.
Töltið er séreinkenni íslenska hestsins og einn helsti kostur hans. Aðrir kostir hans eru gott skap, þjónustulund og mikill vilji. Hesturinn er fótviss og á auðvelt með að rata hvort sem er að nóttu eða degi.
Hesturinn fer úr hárum á vorin. Þá finnst honum gott að láta kemba sig. Á haustin þéttist hárið aftur, þá er hann kominn í vetrarbúning og getur verið úti í hvaða veðri sem er.
Hesturinn hefur sex framtennur í hvorum skolti. Jaxlarnir eru stórir og gáróttir. Með þeim malar hann fæðuna. Fyrir framan jaxlana er tannlaust bil. Þegar hesturinn er beislaður liggja mélin í bilinu á milli framtanna og jaxla.
Hestum eru oft gefin nöfn sem tengjast lit þeirra og einkennum svo sem Nótt, Brúnka, Rauðka, Skjóni, Lýsingur, Mósi, Blesi og Stjarna en Sleipnir er einnig algengt hrossanafn.
Áður en bílar komu til landsins var ferðast um allt á hestum. Þeir voru oft nefndir þarfasti þjónninn. Hestar fluttu meðal annars fólk, vörur, hey og póst.
Til forna voru hestar felldir og þeir látnir fylgja eiganda sínum í haug hans.
Áður fyrr var talið að hestar væru skyggnir, það er að segja þeir sæju ýmislegt í myrkri, meðal annars vofur og afturgöngur. Var það vegna þess að þeir gátu stoppað, prjónað og frýsað og ekki reyndist unnt að koma þeim úr sporunum.
Fengitími
Að vori og yfir sumartímann.
Meðgöngutími
Hryssan gengur með folald í 48 vikur það er að segja í rúmlega ellefu mánuði. Þegar hryssa eignast folald er sagt að hún sé að kasta.
Fjöldi afkvæma
Eitt folald (sjaldan tvö).
Folaldið er sj??lfbjarga og fer strax á spena og fylgir hryssunni næstu sex mánuði. Hryssur kasta á vorin. Meramjólkin kallast kaplamjólk
Íslenska hestakynið hefur ekki blandast öðrum hestakynjum vegna einangrunar landsins. Því er haldið fram að íslenska hestakynið sé það frjósamasta í heimi.
Til að vernda hófana þarf að járna hestinn. Þá eru skeifur negldar undir hófana. Naglarnir heita hóffjaðrir.
Það er hægt að kenna hestum margt.
Nú notar fólk hesta einkum sér til ánægju og útreiða. Áfram gegnir hesturinn þó mikilvægu hlutverki sem reiðskjóti í smalamennsku. Á sumum sveitabæjum eru hestaleigur sem margir ferðamenn nýta sér. Hestar eru seldir og fluttir úr landi. Margir hafa atvinnu sem tengist hrossarækt og má þar nefna tamningamenn, leiðsögumenn og reiðkennara.
Hesturinn gefur okkur kjöt, hrosshúðir og hrosshár.
Merarblóð er selt til lyfjaframleiðslu.
Úrgangur frá hrossum kallast hrossatað. Oftast er mokað daglega út úr hesthúsum. Á vorin er hrossataði dreift á tún.
Graðfoli: Stóðhestur.
Hestahnútur: Hnútur settur saman úr tveim lykkjum sem herðast að þegar í er togað.
Hestasteinn: Steinn sem hestar voru bundnir við.
Hrossabrestur: Skella, tæki til að gera hávaða og fæla burtu hross.
Hrossafluga: Mjög háfætt skordýr af ættbálki tvívængna.
Hrossagaukur: Fugl af snípuætt.
Hrossanál: Hrossapuntur.
Leiða saman hesta sína: Kappræða, deila, berjast.
Setja sig á háan hest: Hreykja sér.