Hundurinn er spendýr Hann er rándýr og elsta húsdýr mannsins.
Maðurinn tamdi hundinn fyrstan af öllum dýrum.
Íslenski hundurinn er frekar lítill. Hann hefur hringaða, loðna rófu og uppbrett eyru. Í munni hunda eru vígtennur en þær eru ekki eins beittar og tennur katta.
Hundar eru eins og kettir að því leyti að þeir fara úr hárum á vorin og nýtt hár vex í staðinn.
Hundum eru gefin nöfn sem þeir læra að gegna sem hvolpar. Dæmi um nöfn á hundum: Kolur, Lappi, Perla, Píla, Snati, Snót og Vaskur.
Hundadagar hefjast 13. júlí og lýkur 23. ágúst. Orðið hundadagar mun vera komið úr latínu frá Grikkjum og Rómverjum. Er það vegna þess að um hásumar skín Síríus eða hundastjarnan skært. Hér á landi hafa ýmsar nafnskýringar verið reyndar, til dæmis að hundar bíti gras á hundadögum en hundar bíta talsvert gras um þetta leyti.
Síðustu aldir hefur tímabilið verið tengt minningu um Jörund hundadagakonung og valdatíma hans á Íslandi sumarið 1809. Aðalheyskapartími Íslendinga var um þetta leyti og allir höfðu áhyggjur af veðurfari á hundadögum. Það er gömul þjóðtrú að ef rignir í upphafi hundadaga megi búast við rigningu allt tímabilið.
Fengitími
Allt árið.
Meðgöngutími
Tíkin gengur með hvolpinn í níu vikur það er að segja um 63 daga.
Fj??ldi afkvæma
Tíkin getur gotið mörgum hvolpum í einu, oft 6–8 eða jafnvel fleiri.
Hvolpar eru ósjálfbjarga í fyrstu eins og kettlingar.
Mikilvægt er að ala þá vel upp og kenna þeim að hlýða einföldum skipunum.
Íslenski fjárhundurinn hefur fylgt okkur frá landnámi.
Fleiri tegundir hafa verið fluttar inn og má þar nefna Labrador, Sheffer, Border collie og Sankti Bernharðshund.
Til þess að hundar haldi sérkennum sínum eru þeir hreinræktaðir og hefur fólk atvinnu af því að rækta og selja þá. Hreinræktaðir hundar eru seldir dýrari en blendingar. Blendingar eru af fleiri en einni tegund. Engir tveir blendingar eru eins.
Hundar eru notaðir sem fjárhundar, sporhundar, leitarhundar, blindrahundar og veiðihundar.
Í þéttbýli eru hundar oft notaðir sem gæludýr.
Búa saman eins og hundar og kettir: Vera sífellt að rífast.
Heima er hundurinn frakkastur: Af því að þar þekkir hann til alls. Þar er hann hærra settur en aðrir hundar sem koma í hlað!
Hundakúnstir: Fíflalæti, leikaraskapur.
Hundasund: Sundaðferð hundsins; fálmkennd sundaðferð manna.
Hundhrakinn: Allur rennvotur, slæptur (eftir mikla rigningu).
Hundskamma: Skamma mikið.
Hundslappadrífa: Mikil og stórflygsótt snjókoma í logni.
Oft fer góður biti í hundskjaft: Þegar einhver fær það sem hann á ekki skilið.
Setja upp hundshaus: Verða fýldur.
Aumingja Siggi
Hjónin á Hofi
Latasti hundur í heimi
Skipti
Snati og Óli