Kýrin er húsdýr, spendýr, klaufdýr og jórturdýr
Kýrin er stórt og þunglamalegt dýr. Kýrin er lágfætt og kviðmikil. Flestar kýr eru kollóttar, þ.e. þær eru ekki með horn. Kýr sem eru með horn eru kallaðar hyrndar. Hyrndar kýr geta verið hættulegar, þær geta stangað og meitt hver aðra og jafnvel fólk.
Naut geta verið hættuleg fólki og þá er talað um að þau séu mannýg. Sum naut eru með hring í nefi. Þá er hægt að teyma þau með því að setja band í hringinn.
Yfir vetrartímann þarf að gefa kúnum og mjólka þær tvisvar á dag. Kýrnar verða að fá nóg að éta og drekka. Einnig þarf að kemba þeim og snyrta, hirða vel í kringum þær, sópa fóðurganga, þrífa bása og moka flór. Kýrnar eru hafðar í fjósi.
Kúnum eru oft gefin nöfn sem tengjast lit þeirra svo sem Rauðka, Skjalda, Dimma, Kola, Grana og Brandur en dæmi um önnur kúanöfn eru Búkolla og Guttormur.
Áður fyrr var talið að eitt væri það sem kýrnar hefðu fram yfir aðrar skepnur það er að þær gætu talað saman einu sinni á ári á mannamáli, annaðhvort á nýársnótt, þrettándanótt eða á Jónsmessunótt (24. júní).
Fengitími
Allt árið.
Meðgöngutími
Kýrin gengur með kálf í 41 viku það er að segja í rúmlega níu mánuði. Þegar kýrin eignast kálf er sagt að hún sé að bera.
Fjöldi afkvæma
Kýrin ber einum kálfi (mjög sjaldan tveimur).
Kýrin verður að eignast kálf til að geta byrjað að mjólka og hún verður að eignast kálf einu sinni á ári til að geta haldið því áfram.
Kýrin getur eignast kálf hvenær sem er á árinu.
Kálfurinn er sjálfbjarga strax eftir burð. Hann vegur um 30 kg að þyngd þegar hann lítur dagsins ljós. Fyrst eftir að kýrin ber kemur mjólk sem heitir broddur. Kálfurinn fær hluta af honum og úr hinum hlutanum eru oft gerðar ábrystir.
Íslenski kúastofninn og holdanaut af skoskum uppruna.
Á sumrin eru kýrnar úti dag og nótt og eru einungis reknar inn til mjalta.
Kýrnar gefa okkur mjólkina. Úr mjólkinni er búið til smjör, rjómi, skyr, ostar, jógúrt, súrmjólk, mysa, ís og ýmislegt fleira.
Kjötið af nautgripum þykir herramannsmatur.
Úr skinni nautgripa er til dæmis hægt að búa til föt, skó og töskur.
Það af fóðrinu sem kýrin getur ekki melt kemur út um afturendann og kallast mykja eða kúadella. Mykjan er síðan borin á túnin svo grasið vaxi betur.
Að vera með kálfsfót (kálfsfætur, k??lfslappir): Vera með sokkinn (sokkana) niður um sig.
Kúablóm: Lækjasóley.
Margt er undarlegt (skrýtið) í kýrhausnum: Margt er nú skrýtið, margt afkáralegt (skoplegt) er til.
Nautsmerki: Stjörnumerki.
Sjaldan launar kálfur ofeldi: Gera einhverjum gott en fá vanþakklæti í staðinn.
Stara á eitthvað eins og naut á nývirki: Glápa eins og dolfallinn.
Þar stendur hnífurinn í kúnni:Þar stendur allt fast.
Aumingja Siggi
Kusa kosin
Kvæði um kálf
Kýr í haga
Sá ég belju á svelli
Skýr kýr
Úr Barnagælu frá Nýa Íslandi