Hænsn eru fuglar. Fuglar eru vængjuð og fiðruð dýr sem verpa eggjum og hafa heitt blóð. Hænsn eru alætur.
Hænsn eru fremur stórir fuglar. Þau eru klædd fiðri. Fiðrið skiptist í fjaðrir og dún. Dúnninn liggur við kroppinn. Hann skýlir hænunni mjög vel. Á fiðrinu er feiti sem ver hænuna gegn vætu. Hænur fella fiðrið eins og spendýr fara úr hárum. Hænur hafa litla vængi miðað við stærð. Þær geta því lítið flogið.
Hænsn eru tannlaus, þess vegna gleypa þau fæðuna ótuggða. Fæðan safnast fyrst í sarpinn og þar mýkist hún. Þaðan fer hún í kirtilmagann þar sem hún blandast meltingarvökva. Síðan fer fæðan í fóarnið sem mylur hana.
Hænan verpir eggjum. Utan um eggið er skurn. Undir skurninni er himna sem nefnist skjall. Síðan kemur hvítan og innst í egginu er rauðan. Góð varphæna getur orpið allt að 300 eggjum á ári. Þegar hænur eru orðnar fjögurra mánaða gamlar byrja þær að verpa.
Hænur fá oft nöfn vegna lits og einkenna svo sem Doppa, Frekja, Gul og Toppa.
Í gamla daga þegar fólk átti ekki vekjaraklukku í sveitinni, þá lét það hænsnin vekja sig og þá var sagt að maður vaknaði við fyrsta hanagal.
Fengitími
Allt árið.
Meðgöngutími
Hænan gengur með í tuttugu og einn dag.
Fjöldi afkvæma
Hænan getur ungað út 10–12 eggjum í einu.
Ungi verður til þegar hani frjóvgar eggið áður en hænan verpir því. Ef hænan á að unga út eggjum liggur hún á þeim í þrjár vikur. Þegar hænur á útungunarbúi verpa eru eggin tekin strax frá þeim og sett í hitaskáp sem kallaður er útungunarvél. Þegar ungarnir eru eins dags gamlir eru þeir sendir til bænda. Hænuungar sem eiga að verpa eggjum fara á eggjabú. Ungar sem eru aldir til slátrunar fara hins vegar á kjúklingabú.
Íslensku hænurnar komu með landnámsmönnum. Þær eru litlar og marglitar. Leitast hefur verið við að varðveita íslenska hænsnastofninn og af því tilefni var stofnaður sérstakur félagsskapur til að standa vörð um hann.
Nú eru hvítar hænur algengastar. Þær eru frá Ítalíu og eru álitnar besta varphænukynið.
Hænsnin gefa okkur egg og kjöt.
Hér áður fyrr fengu neytendur oft gölluð egg. Nú kemur það varla fyrir því eggin eru gegnumlýst og gölluð egg tekin frá.
Hægt er að nota egg á marga vegu, svo sem sjóða þau, linsjóða eða harðsjóða, spæla þau á pönnu og í bakstur.
Úrgangur frá hænsnum kallast hænsnaskítur. Hann er borinn á túnin á vorin til ræktunar.
Allir hanar hafa kambinn.
Fjöðurstafur: Pípan neðst á fuglsfjöður.
Heima er haninn ríkastur.
Hænublundur: Skammur svefn.
Hænufet: Skref hænu, mjög stutt skref.
Morgunhani: Árrisull maður.