Kindin er húsdýr, spendýr, klaufdýr og jórturdýr.
Sumar kindur eru með horn, aðrar eru kollóttar og enn aðrar eru hníflóttar.
Hárið á kindunum kallast ull. Ullin skiptist annars vegar í langt og gróft hár sem kallast tog og hins vegar í fínt og þétt hár sem kallast þel sem er næst húðinni.
Kindur eru með tvo spena á júgrinu. Fyrir aftan spenana eru tveir litlir spenar. Úr þeim kemur engin mjólk.
Á vorin fæðast lömbin, það kallast sauðburður.
Fljótlega eru lömbin mörkuð. Þá er skorið eða klippt í eyrun og teknir smábitar úr þeim.
Á sumrin eru kindurnar í haga. Þar ganga þær sjálfala.Yfir vetrartímann þarf að gefa kindunum á hverjum degi. Það er kallað að gefa á garðann. Þær þurfa að fá nóg að éta og drekka. Það þarf að hirða vel í kringum þær eins og önnur dýr.
Kindum eru oft gefin nöfn sem tengjast því hvernig þær eru á litinn. Má þar nefna Mjöll, Surtla, Gráni, Móri, Botna, Golsa og Flekka.
Áður fyrr voru búnar til skeiðar og leikföng handa börnunum úr hornum kindanna.
Það var trú manna til forna að ef jörð væri hvít (snjór á jörð) um fengitímann yrðu flest lömbin hvít. Ef jörð væri hins vegar rauð (snjólaust, auð jörð) yrðu þau mislit (sv??rt, grá, mórauð).
Fengitími
Nær hámarki í desember/janúar.
Meðgöngutími
Kindin gengur með lamb í 21 viku, það er í tæpa fimm mánuði.
Fjöldi afkvæma
Kindin getur verið einlembd, tvílembd eða þrílembd.
Á vorin fæðast lömbin, það kallast sauðburður. Ær getur fyrst átt lamb þegar hún er eins árs gömul. Það kallast að ærin beri þegar lömbin fæðast.
Lambið er um þrjú til fjögur kíló að þyngd þegar það er nýborið, eins og börnin þegar þau koma í heiminn.
Íslenska sauðkindin kom hingað til lands með fyrstu landnámsmönnunum og er af norrænu bergi brotin.
Þegar lamb er nýborið fer ærin að hreinsa það. Hún sleikir það og er þá sagt að ærin sé að kara lambið.
Ef lamb missir móður sína er það alið heima á bænum og kallast heimalningur. Heimalningurinn fær mjólk úr pela.
Á haustin er fénu smalað saman og rekið í réttir. Féð er dregið í dilka. Síðan er féð rekið eða keyrt heim.
Kindurnar eru rúnar, notaðar eru klippur eða rafmagnsklippur.
Kindin gefur okkur kjöt, ull, gærur og skinn.
Íslendingar borða mikið lambakjöt og þykir það herramannsmatur.
Úr ullinni er hægt að prjóna, t.d. peysur, sokka og vettlinga.
Skinnið má nota í mokkajakka eða kápur, húfur og lúffur.
Úrgangur frá kindum kallast lambaspörð og kindaskítur. Á vorin eru fjárhúsin hreinsuð. Fólkið á bænum mokar skítnum með hand- eða vélarafli og síðan er honum dreift á túnin til að auka grassprettu.
Forystukind/forystusauður: Kind/sauður sem fer fyrir í fjárrekstrinum oft í vondri færð.
Hrútaber: Ávöxtur hrútaberjalyngs.
Hrútsmerki: Stjörnumerki.
Kindarlegur: Heimskulegur eða skömmustulegur.
Lambagras: Villijurt af hjartagrasaætt.
Lambhúshetta: Höfuðfat.
Oft er misjafn sauður í mörgu fé: Kindur geta verið misjafnar eins og mennirnir.
Sauðþrár: Mjög þrjóskur.
Skera hrúta: Hrjóta (hátt og mikið).
Undinn upp í hrútshorn: Fúll, önugur.