Hreindýr er spendýr, klaufdýr og jórturdýr. Hreindýr halda sig í hjörðum. Þegar dýr lifa í hjörðum er átt við að þau haldi sig í hópum.
Hreindýr voru flutt til landsins frá Noregi. Þau eru jurtaætur og lifa því bara á fæðu úr jurtaríkinu. Þau lifa eingöngu á Austurlandi því þar er mikið af fléttum og skófum og inn undir Vatnajökli er snjólétt á vorin. Það eru til um 3000 hreindýr á Íslandi.
Hreindýr eru með þykkan feld. Feldurinn er mjög skjólgóður og hlýr. Sumstaðar á honum eru hárin hol að innan sem einangrar vel. Þess vegna geta hreindýrin verið úti allt árið.
Hreindýr eru brún á haus, baki og löppum að framan. En á síðu og kvið eru þau grá. Oft eru þau ljós í kringum augun og á hálsinum. Á haustin vex törfunum mikið ljóst skegg. Snoppa hreindýranna er loðin. Þess vegna er svo auðvelt fyrir þau að krafsa fæðu í gegnum þykkt snjólag.
Hreindýr eru af hjartarætt. Þau eru eina hjartardýrið þar sem bæði kynin eru hyrnd og fella þau hornin árlega en á mismunandi tíma. Klaufir hreindýra eru stórar. Þær nýtast vel þegar krafsa þarf eftir fæðu í snjó, synda og ganga í votlendi.
Fengitími
Er í september og október. Hann nær hámarki í byrjun október.
Meðgöngutími
Kýrin gengur með kálf í um 225 daga eða í um sjö og hálfan mánuð.
Fjöldi afkvæma
Kýrin ber oftast einum kálfi en sjaldan tveimur kálfum.
Kýrnar bera yfirleitt á sama svæði ár eftir ár. Kýr og kálfur eru nær ein fyrstu dagana eftir burðinn og þá myndast sterk bönd milli móður og afkvæmis áður en þau sameinast stórri hjörð. Kálfurinn þarf 1,5–2 lítra af mjólk á dag til að þrífast eðlilega.
Hreindýr voru flutt til Íslands á 18. öld frá Noregi, þar af flest frá Finnmörku. Þau voru flutt inn til að auka íslenskan landbúnað. Það átti að stunda hreindýrabúskap eins og á Norðurlöndunum. En nú lifa þau villt í náttúru Íslands.
Á sumrin dvelja hreindýrin uppi á hálendinu og á fjöllum jafnvel inni við jökla en leita síðan út á heiðarnar þegar haustar. Á veturna leita þau niður í dalina og jafnvel til byggða ef það er mikill snjór og þau svöng.
Hreindýr eru hjarðdýr. Þau lifa í hjörðum sem eru misstórar eftir árstíma.
Á fengitíma reyna stórir tarfar að verja margar kýr fyrir öðrum törfum. Þá kemur fyrir að tarfarnir berjast um kýrnar. Stundum svo mikið að þeir særast.
Þegar hreindýr liggja og hvíla sig eru alltaf einhver dýr á verði og fylgjast með því sem er að gerast í kring. Ef þau verða vör við eitthvað stökkva þau upp og safnast saman í hóp. Fyrst hlaupa þau í hringi en síðan hleypur hópurinn frá hættunni með forustudýrið í fararbroddi.
Kjötið af hreindýrum er gott. Það er eitt af aðalréttum á jólahlaðborði Íslendinga.
Úr skinni hreindýra er til dæmis hægt að búa til flíkur, húfur og töskur.
Úr hornunum eru smíðaðir minjagripir. Hornin á törfunum eru stærri en á hreinkúnum.
Hreindýramosi:
Hvít fléttutegund sem hreindýr nærast á.
Farðu yfir bláu hringina til að fá meiri upplýsingar.