Refurinn er spendýr og rándýr.
Refurinn var eina landspendýrið sem landnámsmenn fundu þegar þeir komu til Íslands. Hingað hefur hann líklega komið með hafís frá Grænlandi.
Refur er af hundaætt. Hann er skyldur hundum og úlfum. Hann er því frekar líkur hundum að útliti en miklu minni. Refurinn er 3–4 kg og 90 cm langur frá trýni og aftur á skottbrodd. En skottið sjálft er 30 cm langt og mjög þykkt. Þegar refurinn sefur hringar hann skottið yfir leggi sína og trýni til að hlýja sér.
Refurinn er á ferðinni 12–14 klukkutíma á sólarhring, einkum í ljósaskiptunum ( þegar byrjað er að rökkva).
Refurinn er sérhæfð smádýra- og fuglaæta en þó kemur fyrir að refur drepi lömb. Slíkur refur er kallaður dýrbítur. Nú á dögum eru dýrbítir sjaldgæfir. Grenjaskyttur veiða refi á sumrin til að koma í veg fyrir að þeir drepi lömb. Veiðarnar eru kallaðar grenjavinnsla. Refir eru líka veiddir á veturna
Íslenski refurinn hefur mörg nöfn, má þar nefna melrakki, tófa, lágfóta og skolli.
Fengitími
Hann er í mars og fyrri hluta apríl.
Meðgöngutími
Um 52 dagar eða um sjö og hálf vika.
Fjöldi afkvæma
Tófan eignast oftast 5–6 yrðlinga í goti.
Tófan gýtur í greni. (Greni er hola eða gjóta)
Yrðlingarnir eru blindir við fæðingu og opna augun eftir 15 daga. Þeir nærast síðan á móðurmjólk fyrstu þrjár vikurnar en fara þá að éta kjöt sem foreldrar þeirra færa þeim.
Yrðlingarnir eru orðnir sjálfbjarga þriggja til fjögurra mánaða gamlir.
Íslenski refurinn er talinn hafa borist til Íslands með hafís fyrir meira en 10.000 árum. Hann telst til refategundar sem er útbreidd um öll lönd sem liggja að Íshafinu og kallast þar heimskautsrefur.
Ekkert dýr hefur þéttari feld en heimskautsrefurinn og einangrun hans er svo góð að hann þolir allt að 70 gráðu frost í logni áður en hann fer að skjálfa sér til hita.
Íslenskir refir eru ýmist mórauðir allt árið eða hvítir á veturna og mógráir á sumrin. Mórauði refurinn er algengastur við sjóinn en hvíti refurinn er algengari á hálendinu.
Á Íslandi eru um 7.000-10.000 refir á haustin.
Hér á landi eru ræktaðar tvær tegundir á refabúum en það eru blárefur og silfurrefur. Blárefurinn er sama tegund og villti, íslenski refurinn, en silfurrefurinn er af sömu tegund og rauðrefurinn sem er algengur annars staðar í Evrópu.
Refurinn stundar veiðar og þegar hann finnur meiri fæðu en hann þarf grefur hann matinn sem umfram er í jörðina. Hann getur síðan fundið hann aftur með því að þefa hann uppi. Sumt af þeirri fæðu sem hann grefur étur hann ekki fyrr en komið er fram á vetur.
Þegar refur ætlar að koma upp fjölskyldu þá helgar hann sér svæði og lokkar svo til sín maka. Hann merkir svæðið sitt með þvagi sínu. Þetta umráðasvæði er óðal hans og bæði læðan og steggurinn hjálpast að við að verja það fyrir öðrum refum.
Ef nágrannarefir sjást nærri óðali hans þá stikar hann gaggandi meðfram landamærunum með skottið beint upp í loftið og merkir þúfurnar með þvagi og lætur mikið á sér bera.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinnið notað sem verslunarvara.
Grenjaskyttur hafa tekjur af refaveiðum.
Feldurinn er notaður í flíkur. Til dæmis pelsa eða húfur. Í einn pels fara 15 refaskinn.
Lagarefur:
Sá sem er snjall að túlka lögin sér í vil.
Refabú:
Loðdýrabú.
Refabaunir:
Garðjurt.
Refskák:
Fornt tveggja manna tafl.
Skella skollaeyrunum við einhverju:
Láta sem vind um eyru þjóta.
Sjaldan bítur gamall refur nærri greni:
Svo ekki komist upp um verustaðinn hans.
Skjóta einhverjum ref fyrir rass:
Leika á einhvern.
Ekkert er að hafa af skollanum nema skinnið:
Því að refir þykja óætir.
Farðu yfir bláu hringina til að fá meiri upplýsingar.