Húsamús er spendýr og nagdýr.
Húsamús er sennilega komin frá sunnanverðri Mið-Asíu. Hún kom til Evrópu í fornöld og hefur síðan borist með manninum um allan heim. Ekki er vitað hvenær hún barst fyrst til Íslands en talið að það hafi verið fljótlega eftir landnám.
Hún er 7–9 cm á lengd frá snjáldri og aftur að halarót. (En trýnið á músinni er kallað snjáldur). Halinn er nærri því jafn langur og músin sjálf
Húsamúsin er með frekar lítið höfuð, snjáldrið snubbótt og bæði augu og eyru eru fremur lítil miðað við hagamús.
Húsamúsin er mjög háð því að búa í nánu sambýli við manninn.
Hún fær oft að búa óáreitt í bílskúrum og kjöllurum. Hana má finna á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í hesthúsahverfum eða þar sem fóðurstöðvar er að finna.
Fengitími
Húsamúsin er mjög frjósöm. Hún getur átt unga 5–6 sinnum á ári og stundum oftar.
Meðgöngutími
Músin gengur með í 19–20 daga.
Fjöldi afkvæma
Húsamúsin getur eignast 4–8 unga í hverju goti. Þeir eru blindir með lokuð eyru og hárlausir nema með stutt veiðihár.
Þegar komið er að goti býr hún sér til hreiður. Hreiðrið er vel falið á dimmum stað. Það er fóðrað með margs konar mjúkum hlutum, til dæmis tuskum, heyi, ull eða pappir.
Ungarnir geta orðið kynþroska áður en þeir verða tveggja mánaða. Þá fara þeir að eignast afkvæmi. Þess vegna getur músum fjölgað mjög hratt ef þær hafa nóg að bíta og brenna.
Hér á landi er ein tegund af húsamús sem lifir villt. Liturinn á henni er dökkgrár eða mógrár og hún er oftast ljósari á kviðnum.
Það eru líka til hvítar mýs í tilraunastofum og sumir eiga hvítar húsamýs sem gæludýr.
Mýsnar eru mest á ferð á nóttunni. Þá má oft heyra þær hlaupa um uppi á lofti eða á milli þilja. Þá fara þær í leit að fæðu.
Húsamúsin veldur oft tjóni í húsum manna með því að naga í sundur umbúðir og veggi og óhreinka matvæli með saur og þvagi. Húsamús hefur sterkar framtennur.
Ef mýs komast í mikil matvæli éta þær fylli sína og hefjast síðan handa að flytja matinn í holu sína eins mikið og þær geta.
Húsamúsin á létt með að klifra upp veggi sem eru ekki mjög sléttir. Hún smýgur inn um litlar rifur og holur og á því mjög gott með að komast inn í hús manna án þess að þeir viti hvar hún hefur farið inn.
Menn hafa notað ketti til að fækka músum.
Notaðar til tilrauna og sem gæludýr.
Man mýsla hvar mat er sér fann:
Kemur aftur og aftur.
Hjálpast mýsnar í holunum:
Hvetja menn til að standa saman.
Ekki er sú betri músin er læðist en hin er stekkur:
Af báðum hlaust tjón.
Að brynna músum:
Gráta
Leika sér eins og köttur að mús:
Koma fram við einhvern af tillitsleysi og grimmd
Vera eins og mús undir fjalaketti:
Þora hvorki að æmta eða skræmta.