Hagamúsin er spendýr og nagdýr.
Hagamúsin er ættuð frá meginlandi Evrópu og Bretlandi. Hún hefur sennilega komið hingað með skipum landnámsmanna.
Hagamús er mjög smávaxin. Hún er 9 cm að lengd frá snjáldri og aftur að skottrót. Skottið sjálft er 8 cm langt.
Hún er eitt af fjórum landspendýrum hér á landi sem getur lifað af án mannsins. Þær er að finna allstaðar þar sem gróður vex. Þær grafa sér holur í grónar brekkur, þúfur og bakka. Holur þeirra eru eins og göng og er þar að finna margar forðageymslur, þar sem fæðu er safnað fyrir veturinn. Inni í göngunum búa þær sér til hreiður fóðruð með sinu, laufi og stundum ull.
Hagamýsnar eru mjög félagslyndar og búa margar saman á veturna en á sumrin verja kvenmýsnar svæði fyrir sig og ungana sína sem þær hleypa ekki öðrum kvenmúsum inn á. Karlmýsnar verja ekki svæði og þær taka ekki þátt í uppeldi unganna.
Helstu óvinir hagamúsarinnar eru minkur, brandugla, refur og ekki má gleyma kettinum.
Fengitími
Hagamúsin gýtur 2–3 sinnum á ári en bara á sumrin.
Meðgöngutími
Hún gengur með í 25–26 daga.
Fjöldi afkvæma
Hagamús gýtur um 5–6 ungum í senn.
Ungarnir fæðast blindir og hárlausir. Eftir sex daga eru þeir komnir með hár.
Þeir fá tennur eftir um 13 daga og augun opnast eftir 16 daga.
Fyrstu 18 dagana eru þeir á spena. Þá fara þeir að sjá um sig sjálfir.
Þeir eru kynþroska um hálfs árs gamlir.
Hagamúsin sem lifir hér á landi er kölluð skógarmús erlendis. Þar lifir hún aðallega í skógum en hér á landi bæði úti í haga og skóglendi. Hagamúsin er grábrún eða gulbrún að ofan og með hvítgráan kvið.
Hagamús kemur sér upp forðabúri í holu sinni með því að safna mat á haustin. Hún safnar fræjum, laukum og berjum. Þó að hagamúsin sé með forðabúr má oft sjá spor eftir hana í snjó sem er nýlega fallinn vegna þess að forðabúrið endist ekki allan veturinn. Ef snjórinn er djúpur gerir hún sér göng í honum niðri við jörð og leitar sér að æti.
Hagamús getur hlaupið, synt og klifrað. Hún ferðast aðallega um á kvöldin og snemma morguns.
Hagamýs eru með mjög góða heyrn og sjón og notast mikið við þetta tvennt til að komast áfram.
Atferli hagamúsa hefur verið talið geta gefið vísbendingar um veðurfar. Það átti að boða harðan vetur ef mýs græfu sér snemma holur eða s??ktu snemma inn í sveitabæi. Svo skipti miklu máli hvert opið á músarholum sneri. Því trúðu menn að mýs sneru opinu á holum sínum undan ríkjandi vindátt. Þannig að ef op á músarholum sneru í suður bjuggust menn við ríkjandi norðanátt næsta vetur og svo öfugt ef músarholuopin sneru í norður.
Raunar hafa hagamýs frekar verið taldir skaðvaldar en nytjadýr því þær geta valdið talsverðum skemmdum ef þær komast í híbýli manna.
Man mýsla hvar mat er sér fann:
Kemur aftur og aftur.
Hjálpast mýsnar í holunum:
Hvetja menn til að standa saman.
Ekki er sú betri músin er læðist en hin er stekkur:
Af báðum hlaust tjón.
Að brynna músum:
Gráta
Leika sér eins og köttur að mús:
Koma fram við einhvern af tillitsleysi og grimmd
Vera eins og mús undir fjalaketti:
Þora hvorki að æmta eða skræmta.
Farðu yfir bláu hringina til að fá meiri upplýsingar.