RÓT

Hlutverk rótar er einkum að taka vatn upp úr jarðveginum og festa plöntuna í moldinni. Í vatninu eru steinefni, sem plönturnar þurfa á að halda, svo að þær vaxi eðlilega. Rætur geyma líka forðanæringu og verða sumar mjög gildar eins og gulrætur.

Fyrsta rótin, sem vex á plöntum, kallast kímrót, en síðan myndast annaðhvort stólparót eða refjarót Stólparót vex oftast beint niður í jörð en hliðarangar greinast út frá henni á ská. Trefjarótin er gerð úr mörgum álíka gildum rótaröngum, sem greinast í allar áttir neðst frá stöngulenda. Sumar stólparætur greinast svo mikið efst, að þær líkjast mjög trefjarótum.

Fremst á hverjum rótaranga er smá þykkildi, sem kallast rótarbjörgin. Hún ver ungar og veikburða frumur inni í rótinni. Grennstu rótarangarnir eru klæddir örsmáum rótarhárum, sem auka verulega yfirborð rótarinnar, svo að hún nái að taka sem mest inn af vatni og steinefnum.

Rótin vex eins og aðrir hlutar plöntunnar. Hún lengist við það að frumur sem eru rétt aftan við rótarbroddinn fjölga sér í gríð og erg og stækka jafnframt. Þannig eru yngstu frumurnar jafnan rétt aftan við bláenda rótar en elstu frumurnar eru upp við stöngulinn. Rætur geta líka gildnað og fer sá vöxtur fram í hringlaga vef inni í rótinni.

Rótarkerfi plantna eru mjög ólík. Sumar plöntur hafa engar rætur, heldur skjóta þær litlum öngum inn í aðrar plöntur og sníkja fæðu úr þeim. Plöntur sem lifa aðeins í eitt ár (einærar plöntur) hafa lítið rótarkerfi. Oft er hægt að þekkja einærar plöntur á því, að auðvelt er að rífa þær upp úr moldinni með rótum. Flestar tvíærar plöntur, það eru þær sem lifa í tvö ár, mynda öflugt rótarkerfi fyrra árið. Í þær safnast mikill sykruforði sem þær nýta sér til að hefja vöxt snemma næsta vor. Fjölæringar sem lifa í mörg ár hafa yfirleitt stórt og víðfeðmt rótarkerfi.