ALDIN OG FRÆ

Í fullþroska bómi myndast aragrúi af frjókornum í frævlunum; úr þeim koma sáðfrumur sem frjóvga eggfrumu sem verða til í frævum. Áður en sáðfruma frjóvgar eggfrumu þarf margt að gerast. Í fyrsta lagi verða frjókorn að berast til frævu. Sá flutningur nefnist frævun og gerist yfirleitt á tvennan hátt, annaðhvort með vindi eða skordýrum.

Þegar frjókorn hefur borist á frævu tekur fruma frjókornsins að skipta sér og fræið byrjar að myndast. Fræ er úr þremur hlutum. Yst er fræskurn, sem oft er geysihörð enda þarf hún að verja kímið. Þá er fræhvíta sem er forðanæring handa væntanlegri kímplöntu. Innst er plöntufóstrið, öðru nafni kím. Sum fræ eru reyndar fræhvítulaus en þá safnast forðinn í sjálft kímið. Kímið og fræhvítan mynda það sem kallað er fræ.

Frævlarnir og krónublöð blómsins eru nú horfin en frævan hefur þykknað og breyst, ber þroskuð fræ og kallast nú aldin. Sum aldin eru æt en önnur ekki og þau bera ýmist eitt eða mörg fræ hvert. Aldin má flokka í hnýði, hnetur, ber og steinaldin. Menn og dýr sækja í þessi aldin og sjá þannig um að dreifa fræjum plöntunnar.

Fræ spírar með ýmsum hætti. Fræið þarfnast súrefnis, ákveðins hita og vatns til þess að vaxtarferlið fari af stað. Fyrst leitar kímrót út úr fræi og vex hún lóðrétt niður því að hún er jarðsækin. Fyrstu blöðin nefnast kímblöð.

Sum kímblöð koma aldrei upp, annaðhvort vegna þess að þau geyma sjálf forðanæringu eins og hjá grænbaunum eða draga hana beint úr fræhvítunni eins og meðal grastegunda. Algengara er þó að kímblöð skjóti upp kolli og hefi fljótt framleiðslu á sykri.
Flestar blómjurtir hafa tvö kímblöð og kallast því tvíkímblöðungar aðrar blómplöntur hafa eitt kímblað og nefnast einkímblöðungar.

Plöntur verða misgamlar. Margar plöntur lifa aðeins í eitt ár. Þær eru einærar. Snemma vors spretta þær úr fræi, blómgast, mynda fræ og felli það undir haust. Einærar plöntur má þekkja á því að auðvelt er að slíta þær upp með rótum.

Aðrar plöntur lifa aðeins í tvö ár eða eru tvíærar. Fyrra sumarið spretta þær úr fræi en blómgast ekki. Yfirleitt eru þessar plöntur blaðmargar því að þær framleiða mikinn sykur, sem safnast fyrir í rótum og geymist þar um veturinn. Plöntur hefja vöxt mjög snemma að ári og bera þá blóm og mynda fræ. Að lokinni fræmyndun deyja þær og aðeins fræið lifir í moldinni og tekur að spíra næsta vor.

Fjölærar nefnast þær plöntur sem lifa í fleiri en tvö ár. Þær blómgast oftsinnis á æviskeiði sínu.